Hljómsveitin Valdimar og Eyfi skemmta á lokahófi Íslandsmótsins í golfi
Suðurnesjagrúbban vinsæla Valdimar og Eyjólfur Kristjánsson munu skemmta á lokahófi Íslandsmótsins í höggleik í Bláa lóninu nk. sunnudagskvöld. „Það er gaman að geta fengið eina vinsælustu hljómsveit landsins sem er frá Suðurnesjum og Eyfa á fimmtugs afmælisárinu sínu til að koma fram á lokahófinu,“ sagði Gylfi Kristinsson, mótsstjóri í viðtali við kylfing.is.
Yfir 100 manns hafa skráð sig í mótið. Gylfi sagði öll stærstu nöfnin í íslensku golfi búin að skrá sig en hann vonaðist til að fá fleiri unga og kylfinga sem hafa kannski ekki verið að berjast við toppinn á Eimskipsmótaröðinni. „Þetta er mót ársins og það á að vera keppikefli þeirra sem eru í golfi að taka þátt í því. Stemmningin er alltaf ólýsanleg og fyrsta daginn verður dregið í ráshópa. Þá gætu yngri kylfingar eða þeir sem hafa ekki verið í toppbaráttunni á mótaröðinni lent með Birgi Leifi eða einhverjum af okkar bestu kylfingum. Það er það sem allir vilja gera. Ég vonast til að fleiri bætist á þátttökulistann áður en við lokum honum á mánudag.“
Gylfi Kristinsson er ekki aðeins mótsstjóri heldur einnig við vallarstörf í Leirunni. Hér er hann með sláttuvélina á nýjum teig á 10. braut.