Hjörtur Harðarson meiddur í 4 vikur
Körfuboltalið Keflavíkur varð fyrir blóðtöku þegar hinn reyndi bakvörður Hjörtur Harðarson viðbeinsbrotnaði í úrslitaleik Hópbílabikarsins. Hjörtur lenti í samstuði við Brandon Woudstra í byrjun leiks og kom ekki meira við sögu í leiknum. Hann var umsvifalaust fluttur á sjúkrahús þar sem umfang meiðslanna kom í ljós og ljóst er að hann mun ekki vera fær um að stunda æfingar næstu fjórar vikurnar og óljóst er hvenær hann verður orðinn leikfær á ný. Þetta er mikið áfall fyrir Keflavíkurliðið sem stendur frammi fyrir ströngu leikjaprógrammi í Intersport-deildinni og Evrópukeppni bikarhafa. Fjarvera hans þýðir meira álag á hinum bakvörðunum en vafalaust eru liðsfélagar hans reiðubúnir til að fylla í skarðið og mun reyna á þá í fullri alvöru í Evrópuleiknum gegn CAB Madeira á miðvikudaginn kemur.