Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hjólasumarið hefst í Sandgerði
Miðvikudagur 4. maí 2016 kl. 13:05

Hjólasumarið hefst í Sandgerði

- Góð veðurspá á sunnudag á Geysi Reykjanesmóti

Hjólreiðakeppnin Geysir Reykjanesmótið verður haldin í Sandgerði næsta sunnudag, 8. maí. Keppnin hefur verið haldin árlega síðan árið 2008 og hefur fjöldi þátttakenda aukist jafnt og þétt með hverju árinu. „Í fyrstu voru á milli 20 og 30 sem tóku þátt. Í fyrra voru það 269 og var það aukning um 100 frá árinu áður,“ segir Svanur Skarphéðinsson, mótsstjóri Geysis Reykjanesmóts, sem á von á að minnsta kosti 300 hjólreiðamönnum til Sandgerðis í ár. Samkvæmt veðurspánni verður kjörið hjólaveður og aðeins örlítill vindur, þrír metrar á sekúndu.

Þríþrautardeild UMFN sér um skipulagningu hjólreiðakeppninnar. Hægt verður að velja um tvær vegalengdir, 32 kílómetra leið eða 63 kílómetra. Svanur segir Reykjanesmótið bæði henta fyrir keppnisfólk, byrjendur sem komnir eru nokkuð á veg og allt þar á milli. „Í fyrra var elsti keppandinn 78 ára og svo eru þeir yngstu 12 til 13 ára. Leiðin sem við hjólum er mjög skemmtileg og nokkuð slétt. Við byrjum við Sundlaugina í Sandgerði og hjólum áfram Stafnesveginn. Hjólreiðafólk sem fer styttri leiðina snýr við hjá afleggjaranum að Höfnum en þeir sem hjóla lengri leiðina snúa við hjá Reykjanesvirkjun,“ segir Svanur. Margt hjólreiðafólk kemur ár eftir ár og bíður spennt eftir keppninni allan veturinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Veitt verða verðlaun eftir aldursflokkum og kynjum fyrir fyrstu í báðum vegalengdum. Bílaleigan Geysir er einn margra styrktaraðila keppninnar og gefur fyrstu konu og fyrsta karla í lengri vegalengdinni 100.000 króna peningaverðlaun. Eftir hjólreiðarnar verður frítt í sund í Sundlaug Sandgerðis, veitingar á boðstólum og fjöldi útdráttarverðlauna. Skráning fer fram á vefsíðunni hjolamot.is og stendur til miðnættis á fimmtudag, 5. maí. Ekki verður hægt að skrá sig á staðnum.