Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hjólamót í Sandgerði orðið eitt vinsælasta hjólamót landsins
Miðvikudagur 25. apríl 2018 kl. 15:44

Hjólamót í Sandgerði orðið eitt vinsælasta hjólamót landsins

- Reykjanesmót Nettó og 3N opnar hjólasumarið 2018. Mótið er búið að festa sig í sessi og orðið eitt vinsælasta hjólamót landsins

Reykjanesmót Nettó og 3N verður haldið í sjöunda skiptið þann 6.maí næstkomandi. Mótið sækir sífellt í sig veðrið og er nú orðið meðal vinsælustu hjólamóta á landinu en Íslendingar virðast sífellt áhugasamari um að taka þátt í slíkum mótum.

Rúnar Helgason, varaformaður 3N, segir mikillar spennu gæti meðal hjólreiðamanna- og kvenna í aðdraganda mótsins. „Þeir hjólarar sem hafa verið á kafi í inniæfingum í vetur eru eðlilega mjög spenntir að komast út og verða því alltaf svolítið eins og beljur á vorin. En auðvitað eru líka harðjaxlar sem hjóla allan ársins hring úti – þetta er allt saman ákaflega skemmtilegt og mikið líf í kringum þessa fyrstu hjólreiðakeppni sumarsins,” segir hann.

Mótið er þannig þannig uppbyggt að flestir hjólreiðagarpar ættu að geta fundið eitthvað fyrir sig, hvort sem um ræðir nýgræðlinga eða þá sem lengra eru komnir. Boðið verður upp á þrjá valmöguleika þegar kemur að  vegalengdum. Um ræðir 32, 63 og 106 kílómetra. Líkt og áður verða þrjú  fyrstu sætin í hverjum aldursflokki karla og kvenna,  verðlaunuð

Þess ber að geta að 106 kílómetra leiðin er jafnframt hluti af bikarkeppni, Íslandsbikars í götuhjólreiðum, þ.e. liður í bikarmótaröð sem telur þrjú mót, bæði í karla- og kvennaflokki.

„Leiðirnar sem farnar eru þykja einstaklega skemmtilegar, enda náttúrufegurðin engu öðru lík á Suðurnesjunum. Keppnin verður ræst af stað í Sandgerði og lýkur í Sandgerði, burtséð frá vegalengdum. Þeir sem lengst fara, alla 106 kílómetrana, munu hjóla í átt að Hvalsnesi um Ósabotnaveg að Hafnarvegi, beygja í átt að Reykjanes, fara þar að Reykjanesvirkjun og þaðan til og í gegnum Grindavík eftir Suðurstrandavegi og upp á Festarfjall þar sem snúið er við og farið aftur til baka sömu leið,” segir Rúnar.

Hann segir aðsókninina sífellt vaxandi. „Við sjáum vöxt ár frá ári og í fyrra voru alls 340 þátttakendur. Við eigum ekki von á öðru en að sú tala verði toppuð í ár – enda hefur áhugi á hjólreiðum, sjaldan ef nokkurn tíma, verið meiri hérlendis.”

Skráning fer fram á heimasíðu HRI.
Allar frekari upplýsingar veitir Rúnar í síma: 894-4206.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024