Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hjólagarpar ÍRB: Á leið frá Hafnarfirði
Föstudagur 22. júní 2007 kl. 10:39

Hjólagarpar ÍRB: Á leið frá Hafnarfirði

Víkurfréttir greindu frá því í gær að nokkrir vaskir hjólagarpar myndu í dag halda upp í áheitahjólaför til styrktar keppnisferð ÍRB á Aldursflokkamót Íslands í sundi. AMÍ fer fram á Akureyri í næstu viku og hafa sundmenn ÍRB verið að ganga í hús og safna áheitum á hjólahetjurnar sínar.

 

Hjólreiðagarparnir Haraldur Hreggviðsson, Júlíus Friðriksson, Ingi Þór Einarsson og Klemenz Sæmundsson héldu af stað frá Sundmiðstöð Keflavíkur í morgun og Víkurfréttir hittu á garpana í Hafnarfirði.

 

„Við stefnum að því að hjóla um 100 km á dag og því ættum við að vera komnir til Akureyrar á mánudag,” sagði Harladur Hreggviðsson, einn hjólreiðamannanna, í samtali við Víkurfréttir í morgun. Haraldur bætti þó við að hópurinn myndi keyra til baka þegar AMÍ væri lokið.

 

Hjólreiðamennirnir hafa lagt mikið á sig í vetur til þess að undirbúa sig fyrir hjólaferðina og má þess geta að Haraldur hefur misst 25 kg síðan hann hóf æfingar í vetur. „Mér datt svona ferð í hug fyrir um tveimur árum og nú er þetta farið af stað hjá okkur, sumir telja að við séum brjálaðir, menn á fimmtugsaldri að hjóla Norður til Akureyrar,” sagði Harladur hressi í bragði í morgun. Hann hjólaði ásamt félögum sínum eitt stykki Reykjanesbraut án þess að blása úr nös.

 

Ráðgert er að félagarnir nái í Borgarnes í kvöld þar sem fyrsta áfanga ferðarinnar lýkur.

 

VF-mynd/ Stefán Þór BorgþórssonHjólagarpar ásamt Jóni Kr. Magnússyni og tíkinni Heklu en Jón og Hekla eru sérlegir leiðsögumenn í ferðinni og munu fylgjast vel með úr bílaleigubílnum frá Geysi sem hópurinn fékk að notum fyrir ferðina.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024