Hjálpaði fiskikarið Keflvíkingum gegn Stólunum
Keflavík sigraði Tindastól 106:73 í Toyota höllinni í Keflavík í gærkvöldi og Njarðvík sigraði Breiðablik í Smáranum 120-77 í Iceland Express deildinni í körfubolta. Kannski fiskikarið sem á að vera ísbað fyrir leikmenn í Íþróttahúsi Keflavíkur hafi haft góð áhrif á Keflvíkinga sem unnu Stólana mjög létt.
Fyrr í vikunni var tekin sú ákvörðun hjá meistaraflokks leikmönnum karla í Keflavík að koma fyrir kari í íþróttahúsinu í Keflavík og að leikmenn myndu skella sér í ísbað. Eftir veðráttuna í síðustu daga munu Keflvíkingar kannski hugsa sig um og breyta þessu í heitan pott, segir á karfan.is
„Það var reyndar Jonni (Jón Norðdal) sem stakk uppá þessu og ég sagði honum bara að drífa í þessu og setja þetta endilega upp. Þetta herðir þessa pilta sem eru nú nokkuð harðir fyrir, sagði,“ Guðjón Skúlason þjálfari Keflvíkinga á karfan.is um uppátækið og ekki laust við að leikmenn muni nú kalla hann Guðjón Þórðarson í framhaldi af þessu.