Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 23. janúar 2002 kl. 21:24

Hjálmar Jónsson knattspyrnumaður: Hugurinn leitar erlendis

Knattspyrnumaðurinn Hjálmar Jónsson kom hingað til Keflavíkur fyrir þremur árum frá Egilsstöðum. Hann var lítið þekktur þegar hann kom en nú í dag vita flestir knattspyrnuáhugamenn hver hann er. Hann byrjaði mjög rólega og spilaði með 2. flokk til að byrja með og stóð sig ágætlega. Árið eftir fékk hann nokkur tækifæri með mfl. en náði ekki að stimpla sig almennilega inn í liðið. Í fyrra varð hins vegar breyting á því og Hjálmar varð á fáeinum mánuðum máttarstólpi í liði Keflvíkinga. Hann spilaði glimmrandi vel í tímabilinu sem varð til þess að hann var valinn í U-21árs landslið Íslands og nú síðast A-landsliðið.En afhverju komstu til Keflavíkur?
„ Það eru nokkrar ástæður fyrir því en sú helsta er þó Eysteinn Hauksson. Hann bjó áður á Egilsstöðum þar sem ég bjó og því þekkti ég hann töluvert. Hann talaði við mig og sagði mér að Keflvíkingar hefðu áhuga á því að fá mig. Hann talaði mjög vel um liðið, klúbbinn og bæjarbúa og því sló ég til. Hann hefur verið mér til halds og trausts frá upphafi og það er mjög slæmt að horfa á eftir honum. Einnig hafði Kjartan Másson samband við mig og átti hann auðvitað sinn þátt í að fá mig hingað.
Hvernig líkar þér svo í Keflavík?
„Mér líkar mjög vel við mig hér og það er yfir engu að kvarta. Hér er fín aðstaða fyrir fótboltamenn og svo er fólkið í bænum skemmtilegt, allavega það sem ég hef kynnst af því. Mér var tekið mjög vel af strákunum í liðinu og ekki skemmdi fyrir að ég þekkti þarna stráka eins og Eystein og Jóhann Benediktsson“
Hvað gerirðu yfir daginn?
,,Ég vinn hjá Nesprýði á daginn en eftir vinnu fer maður beint á æfingu eða að lyfta. Á kvöldin er maður svo bara með félögunum og tekur því rólega. Um helgar kemur það fyrir að maður kíkir út á lífið en annars geri ég bara þetta helsta sem er í gangi en auðvitað fer mestur tíminn í boltann“.
Nokkur erlend lið hafa sýnt Hjálmari áhuga og má þar nefna Gautaborg frá Svíþjóð en menn frá því liði komu hingað til lands til að fylgjast með honum í æfingaleikjum sem fram fóru í Reykjaneshöll.
Munum við þá ekki sjá Hjálmar í Keflavíkurbúningnum í sumar?
„Jú ég reikna nú með því að spila með Keflavík í sumar eins og staðan er í dag. Það er þó aldrei að vita enda hefur sænska liðið Gautaborg sýnt mér áhuga. Ég er samningsbundinn Keflavík í fimm ár og því munu þeir fá eitthvað fyrir mig ef ég fer erlendis. Hugur minn leitar auðvitað þangað enda er það takmark mitt eins og flestra íslenskra knattspyrnumanna að komast í atvinnumennskuna. Þá aukast líka líkurnar á því að fá að spila meira með landsliðinu“.
Hjálmar var valinn í A-landslið Íslands sem fór til Saudí-Arabíu um daginn og spilaði þar leiki við landslið Sáda og Kúwait. Hjálmar sagði að það hefði ekki hvarlað að honum að hann ætti eftir að spila landsleik svona fljótt og því hafi það komið honum skemmtilega á óvart þegar hann fékk tíðindin. „Ég hef verið að spila með U-21 landsliðinu í síðustu leikjum og staðið mig ágætlega. Það hefur eflaust orðið til þess að Atli Eðvalds valdi mig í þetta verkefni og er ég mjög þakklátur fyrir tækifærið. Ég byrjaði inná í báðum leikjunum og stóð mig ágætlega ef marka má þá umföllun sem var í blöðunum“.
Varstu ekkert stressaður?
„Maður var auðvitað svolítið stressaður fyrir fyrsta leikinn en um leið og hann var flautaður á hvarf allt stress og maður fór bara að hafa gaman af þessu og reyna að gera sitt besta. Atli hafði líka talað við mig fyrir leikinn og sagt við mig að ég ætti ekki að hafa neinar áhyggjur heldur spila bara minn leik og þá myndi þetta fara vel“.
Hvernig var þessi ferð?
„Þetta var auðvitað gríðarlega langt og erfitt ferðalag en annars var mjög gaman. Við byrjuðum á því að spila við Kúwait í Oman í 20 stiga hita og gekk það mjög vel en við náðum þar jafntefli. Völlurinn var stórglæsilegur og sá flottasti sem ég hef spilað á. Svo fórum við til Saudí-Arabíu og spiluðum við heimamenn. Það var gert mikið úr þeim leik því Sádarnir höfðu tapað á móti einhverri smáþjóð nokkrum dögum fyrr og því átti að snúa við blaðinu og halda veislu á móti okkur og var prinsinn mættur á leikinn til að fylgjast með. Þeir sigruðu okkur óverskuldað 1:0 en það var dæmt af okkur mark vegna rangastöðu og svo áttum við að fá víti sem við fengum ekki. Það má því segja að dómarinn hafi verið nokkuð á bandi heimamanna í þessum leik“.
Hvaða stöðu á vellinum varstu að spila?
„Ég spilaði í vörninni sem vinstri bakvörður en það er sú staða sem ég spilaði mest með Keflavík síðasta sumar. Mér líkar ágætlega að spila í þeirri stöðu þó svo það sé auðvitað skemmtilegast að vera í fremstu víglínu. Það hjálpar mér talsvert að ég get spilað nær allar stöður á vellinum en ég held þó að ég sé bestur í vinstri bakverðinum enda hefur mér gengið best þar. Ætli ég endi þó ekki í miðverðinum en Kjartan hefur verið að láta mig spila þar með Keflavík í undirbúningsleikjunum og er það ágætt“.
Hjálmar var valinn bæði besti og efnilegasti leikmaður Keflavíkurliðsins eftir sumarið og svo var hann valinn knattspyrnumaður Reykjanesbæjar árið 2001.
Þú spilaðir ekki mikið sumarið áður, hvað breyttist? Kannski annað hugarfar?
„Nei hugafarið hefur alltaf verið það sama og ég hef alltaf reynt að leggja mig 100% fram í öllu sem ég geri. Það má í raun segja að þegar ég var færður í vinstri bakvörðinn hafi þetta farið að rúlla. Ég fékk þarna tækifæri á að spila meira og nýtti mér það eins vel og ég gat. Sumarið varð ótrúlega skemmtilegt fyrir mig fyrir vikið og það gekk framar vonum fyrir mig persónulega þó svo við hefðum nú mátt gera örlítið betur í deildinni. Ég fékk helling af viðurkenningum og svo náði ég toppnum með því að vera valinn í landsliðið þannig að þetta hefur verið meiriháttar tími“.
Nú hefur umræðan um liðið verið talsverð í bænum er eitthvað sem þú villt segja um þetta mál?
„Mér finnst umræðan i bænum hafa verið svolítið neikvæð í garð liðsins. Auðvitað hefur málið með Eystein og peningavandræðin verið mikið í fréttum og því ekki skrítið að fólk tali um þetta. Þetta var þó farið að smita of mikð út frá sér og menn fengu ekki frið til að vinna sína vinnu.
Núna finnst mér vera kominn tími til að fólk gleymi þessu og fari að hugsa um fótboltann og jákvæðu hliðarnar á honum því það er margt jákvætt að gerast hjá klúbbnum eins og úrslitin í síðustu leikjum gefa til kynna“.
Hvernig leggst komandi sumar í þig?
„Liðið er að ganga í gegnum miklar breytingar, nokkrir leikmenn eru að hætta og aðrir að fara annað og ungir og óreyndir leikmenn að koma upp. En maður kemur í manns stað og ég held að þetta eigi eftir að verða skemmtilegt sumar. Það verður eflaust ekki búist við miklu af okkur en við munum vonandi standa okkur þó liðið sé ungt og óreynt. Þarna eru strákar sem hafa unnið titla í yngri flokkum og kunna því að spila fótbolta og hafa það sem til þarf. Ég er því töluvert bjartsýnn á sumarið og ef menn hafa trú á sér og fótboltinn verður númer eitt getum við gert góða hluti“.
Eitthvað að lokum?
„Já, FÓLKIÐ Á VÖLLINN!!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024