Hill fer ekki í bann - fjórði leikur á morgun
Keflvíkingar fjölmenna norður
Ekkert verður af því að Jerome Hill leikmaður Keflvíkinga fari í bann eftir að Tindastólsmenn höfðu lagt fram kæru. Kom kæran til vegna atviks sem átti sér stað í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino's deildarinnar, þar sem Hill sló til Helga Freys Margeirssonar.
Hill verður því með á morgun mánudag, þegar liðin eigast við á Sauðárkrók í fjórða leiknum, en staðan er 2-1 fyrir Stólana. Keflvíkingar stefna á að fjölmenna norður og hefur verið ákveðið að bjóða upp á fríar rútuferðir fyrir stuðningsmenn liðsins. Nánari upplýsingar hér.
Niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar KKÍ er svohljóðandi:
Aga- og úrskurðarnefnd barst kæra frá Kkd. Tindastóls vegna atviks úr leik Keflavíkur og Tindastóls í úrslitakeppni Domino´s deildar karla þann 23. mars s.l.
Aga- og úrskurðarnefnd getur ekki litið á erindi Tindastóls sem formlega kæru enda hafa félög skv. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál ekki kærurétt í agamálum, heldur ábendingarétt. Eftir að hafa litið á þau gögn sem bárust er það mat nefndarinnar að ekki sé ástæða til að gefa út kæru.
Ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar er ekki úrskurður, heldur ákvörðun um að taka málið ekki fyrir formlega eftir að að hafa skoðað málsatvik.