HFR-ingar sigurreifir um helgina
Hnefaleikafélag Reykjaness (HFR) hélt um síðustu helgi keppni í aðstöðu sinni í gömlu sundhöllinni í Keflavík og voru skráðir til leiks tuttugu og einn keppandi frá sex félögum. Keppnislið HFR vann sex af sjö viðureignum sínum og er óhætt að segja að það sé sigursælasta félag landsins það sem af er keppnistímabilinu.
Íþróttamaður Sandgerðis, Andri Már Elvarsson (13 ára), keppti tvisvar sama kvöldið og hafði yfirburðasigur í bæði skiptin gegn eldri og þyngri andstæðingum frá Hnefaleikafélagi Akraness (HAK) og Hnefaleikafélaginu ÆSIR (HFÆ). Andstæðingur Ástþórs Sindra Baldurssonar (13 ára) mætti ekki í hringinn og var því sigurinn sjálfgefinn, en þegar ljóst varð að slíkt hið sama myndi henda keppanda frá HFÆ hljóp Ástþór í skarðið þrátt fyrir mikinn aldurs- og þyngdarmun. Þegar yfir lauk voru þeir jafnir á stigum og réðist sigur Ástþórs að lokum á því að hann hafði sýnt betri vörn.
Njarðvíkingurinn Pétur "Smiley" Ásgeirsson var í essinu sínu í fyrsta bardaga eftir hlé og var bardaginn stoppaður í þriðju lotu eftir að þung skrokkhögg Péturs höfðu tekið allt púðrið úr andstæðingi hans, Arnóri Má Grímssyni (HAK).
Keppnismaðurinn mikli, Vikar Karl Sigurjónsson, reyndi í annað sinn að vinna bug á þungavigtarmanninum Gunnari Kolla Kristinssyni (HFÆ) en átti ekki erindi sem erfiði. Þótt Vikar hafi barist mun betur en í fyrri rimmu þeirra félaga í september reyndist erfitt að yfirstíga mikinn hæðar- og þyngdarmun auk þess sem Gunnar Kolli barðist einnig betur en síðast. Að fjórum lotum loknum var úrskurðurinn einróma gestinum í vil.
Tveir efnilegustu hnefaleikamenn landsins, þeir Hafsteinn Smári Óskarsson (HFR) og Adam Freyr Daðason frá Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar (HFH), mættust í annað sinn á þrem vikum í hnífjöfnum bardaga. Þessir piltar fara með hanska eins og Paganini fór með Stradivaríus fiðlu og var hrein unun fyrir sanna hnefaleikaunnendur að horfa á þá leika listir sínar. Adam lét Hafstein ekki koma sér á óvart í þetta sinn og barðist mjög skynsamlega og tímasetti gagnsóknir sínar vel. Hafsteinn skoraði hins vegar reglulegar og vann það honum að lokum 2-1 sigur.
Í lokaviðureign kvöldsins mætti Daníel Þórðarson írska skriðdrekanum Kieran Treacy frá Bracken BC og varð útkoman sannarlega eftirminnileg. Fyrsta lota var nokkuð jöfn og náði Írinn oft að klemma Daníel á reipunum og velgja honum undir uggum með skrokkhöggahríðum. Í annarri lotu þreif Keflvíkingurinn knái taumana úr höndum Treacy og var við stjórnvölinn það sem eftir var. Hann snéri sér snarlega af reipunum í hvert skipti sem hætta var á því að Írinn klófesti hann og fór að smellhitta æ oftar með hægra upphöggi. Treacy hætti þó aldrei að pressa og var sannarlega ekki kominn til þess að leggja árar í bát þótt að á brattann væri að sækja. Hann skoraði áfram vel með skrokkhöggum og var Daníel orðinn mjög móður í fjórðu og síðustu lotu þótt hann héldi áfram að refsa andstæðing sínum í hvert skipti sem hann dirfðist að slá frá sér. Allir dómarar voru sammála um úrslitin og Daníel stóð uppi sem sigurvegari jafnframt því að hljóta verðlaun sem besti hnefaleikamaður kvöldsins.
Þetta var síðasta hnefaleikamótið fyrir áramót en ætlunin er að bjóða heim stóru dönsku liði í byrjun febrúar í risakeppni í Reykjanesbæ.