HFR báru af á 40 manna móti
Margrét önnur til að hljóta gullmerki
Hnefaleikafélag Reykjaness gerði það heldur betur gott um helgina þegar fram fór diploma unglingamót. Í annað skipti frá upphafi var afhent gullmerki, en hið fyrra hlaut Arnar Smári Þorsteinsson hjá HFR í lok 2015. Í þetta sinn var það æfingafélagi hans, Margrét Guðrún Svavarsdóttir hjá HFR, sem hlaut gullmerkið. Gullmerkið er einungis afhent hafi viðkomandi keppandi gullstigagjöf í fimm skipti og er það hæsta gráða í diploma hnefaleikum í dag.
Margrét hefur verið einn helsti boxari landsins í dágóðan tíma og var þetta vel verðskuldað. Á mótinu voru 20 viðureignir þar sem ungmenni komu saman og fengu tækifæri á að sýna tæknikunnáttu á móti andstæðing. HFR var með níu keppendur á mótinu, en voru fjögur önnur hnefaleikafélög sem komu að mótinu.
Mótið gekk vel fyrir sig og margir af helstu boxurum landsins mættu til leiks. Aldrei hefur verið jafn fjölmennt diploma mót, en í lokin var gefið eitt nýtt diloma. Það hlaut Stancho Vasilev hjá HFR. Bronsmerki hlutu Friðrik Rúnar Friðriksson (HFR), Emin Kadri (ÆSIR) og Kristófer Örn Halldórsson (HFH). Benóný Færseth (13) og Hörður Ingi Þorsteinsson (12) hjá HFR eru núna að safna upp í bronsmerki, en þeir eru á leiðinni á að vera yngstu keppendur til að hljóta þau verðlaun.