Hetjuleg frammistaða Ljónanna ekki nóg
Ekki var að sjá af bikarleik Ljónanna og Skallagríms í Ljónagryfjunni í gær að þar væru að etjast við lið úr 2. deild og úrvalsdeild. Leikurinn var hin besta skemmtun og spennan rafmögnuð allt fram á síðustu sekúndur þar sem Skallarnir tryggðu sér sigur, 88-90.
Ljónin höfðu fengið til liðs við sig tvo Kana, Anthony Jones og Steve Smith, í þennan eina leik, en það voru heimastrákarnir sem áttu eftir að vekja athygli fyrir góðan leik og mikla baráttu.
Skallarnir voru í erfiðri aðstöðu fyrir leikinn enda öll pressan á þeim á meðan Ljónin höfðu engu að tapa og allt að vinna. Heimamenn byrjuðu mun betur þar sem Örvar Kristjánsson fór mikinn á báðum endum vallarins, en dómarar leiksins stálu senunni strax í upphafi.
Þeir voru ekki sparir á flautuna og fyrr en varði voru allir stóru mennirnir á vellinum komnir með 3 villur, Zdravevski og Anderson hjá Skallagrími og Smith hjá Ljónunum.
Ljónin leiddu naumlega allan fyrsta fjórðunginn með einu til fjórum stigum og var staðan 24-22 eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta byrjuðu Ljónin betur og náðu upp 9 stiga forskoti eftir góðan kafla um miðjan leikhlutann og virtust ætla að sigla örugglega framúr. Skallagrímsmenn áttu þó síðustu mínúturnar með öllu og skoruðu síðustu níu stigin þannig að liðin héldu til klefanna í hálfleik jöfn að stigum, 45-45.
Kanarnir hjá Ljónunum höfðu ekki verið mjög fyrirferðarmiklir þar sem Jones var einungis með 4 stig, en hafði þó Clifton Cook í vasanumí vörninni. Smith átti góða rispu í 2. leikhluta og, þrátt fyrir að hafa verið hvíldur mikið vegna villuvandræða var hann kominn með 10 stig og var öflugur undir körfunni.
Ljónin komust yfir á ný í upphafi seinni hálfleiks og leiddu allan 3. leikhlutann þar sem Jones fór loks að finna netið og setti 9 stig. Skallarnir voru hins vegar aldrei langt undan og söxuðu á forskotið á lokasprettinum og Hafþór Gunnarsson gerði sér lítið fyrir og negldi niður 3ja stiga körfu um leið og flautið gall og kom gestunum yfir í fyrsta skipti frá því í byrjun leiks, 69-70.
Spennan var í algleymingi á lokakaflanum þar sem Skallagrímur hafði frumkvæðið lengst af. Zdravevski, Anderson, Ragnar Steinsson og Smith tíndust útaf hver af öðrum með 5 villur og ljóst var að hver sókn myndi skipta máli.
Friðrik Ragnarsson setti niður eitt mikilvægasta 3ja stiga skot sem hann hefur sett lengi og kom sínum mönnum í 86-83 þegar um lítið var eftir. Clifton Cook svaraði með tveimur stigum og bætti við vítaskoti, en Ragnar Ragnarsson setti tvö víti hinum megin. Gamall refur úr liði gestanna, Ari Gunnarsson, sýndi að hann átti enn einn ás uppi í erminni Þegar hann kom sínum mönnum yfir á ný með 3ja stiga körfu af þvílíku færi. Heyrðist á sumum í stúkunni að skotið hafi komið allt utan úr Keflavík. Hafþór Ingi bætti síðasta stiginu við úr vítaskoti og breytti stöðunni í 88-90.
Ljónin höfðu nokkrar sekúndur til að komast aftur yfir en Örvar Kristjánsson missti sendingu frá Friðriki útaf og Skallarnir hrósuðu sigri.
Ljónin sýndu í leiknum að þeir eru til alls líklegir og mega Skallagrímsmenn prísa sig sæla að vera ekki fyrsta úrvaldeildarliðið til að falla út gegn 2. deildarliði.
VF-myndir/Þorgils