Hemmi Hreiðars hættur með Þrótt
Hermann Hreiðarsson verður ekki áfram sem þjálfari Þróttar, frá þessu greindi Þróttur á Facebook-síðu sinni rétt í þessu.
Hermann tók við liði Þróttar á síðasta ári og setti mark sitt heldur betur á liðið. Þróttur vann 2. deild í sumar og leikur því í næstefstu deild á næsta ári í fyrsta sinn.
„Það hefur aldrei verið leyndarmál að Þróttur Vogum er í þessu til að eignast vini og við höfum eignast vin til æviloka. Við verðum Hermanni ævinlega þakklát fyrir hans framlag til samfélagsins í Vogum. Hann lyfti félaginu á hærri stall og hefur komið Þrótti í hóp bestu liða landsins.“
Það verður að teljast líklegt að Hermann sé á förum til uppeldisfélags síns, ÍBV, en Eyjamenn eru þjálfaralausir eins og Þróttur núna. Þróttarar eru því að hefja leit að arftaka Hermanns.