Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

  • Helmingslíkur á að Hörður spili heima
    Hörður Axel ætlar að spila í Sláturhúsinu ef hann verður á Íslandi.
  • Helmingslíkur á að Hörður spili heima
Laugardagur 14. maí 2016 kl. 06:00

Helmingslíkur á að Hörður spili heima

Er orðinn mikil Keflvíkingur - Kitlaði að fara í Njarðvík

Keflvíkingar hafa klófest einn heitasta bitann á markaðnum í körfuboltanum, eftir að landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið í vikunni. Það er þó ennþá óvíst hvort Hörður muni leika með liðinu en hann hefur ekki útilokað áframhaldandi atvinnumennsku.

„Maður er í rauninni orðinn ansi mikill Keflvíkingur eftir að hafa verið hérna nánast stanslaust í níu ár. Ég er mjög sáttur við að hafa skrifað undir þrátt fyrir að það sé klásúla í samningum um að ég fari út ef það gerist eitthvað fyrir 1. október,“ segir Hörður sem er með umboðsmann á sínum snærum sem skoðar öll tilboð sem koma erlendis frá. Hann er þó ekki tilbúinn að vera í hvaða aðstæðum sem er. „Ef ég vildi vera úti þá gæti ég verið búinn að skrifa undir einhvers staðar. Ef það kemur eitthvað mjög gott þá hoppa ég á það en ég nenni ekki að standa í þessu harki aftur,“ bætir bakvörðurinn öflugi við. Hörður hefur verið að spila í mörgum bestu deildum Evrópu undanfarin ár og hefur metnað til þess að spila í hæsta styrkleikaflokki. „Að labba frá því er dálítið skrýtið, sérstaklega þegar maður er 27 ára. Ég er þó ekki alveg genginn í burtu, ef eitthvað gott kemur þá fer ég aftur.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Voru önnur lið sem höfðu samband?
„Það voru einhver skilaboð þar sem ég var spurður um hvort ég hefði áhuga en það fór ekkert lengra en það,“ segir Hörður sem hefur sínar ástæður fyrir því að velja Keflavík.
„Mér leið rosalega vel í Keflavík og allir Keflvíkingar tóku mér mjög vel. Það eru vissir menn í Keflavík sem mér finnst ég skulda aðeins meira en ég gerði, eins og til dæmis Einar Einars sem hjálpaði mér gífurlega mikið. Ég á Keflvíkingum mikið að þakka þar sem þeir hjálpuðu mér að gera það sem ég gerði í atvinnumennsku.“

Flakkið tekur sinn toll

Í fyrra flakkaði Hörður ásamt Hafdísi konu sinni á milli þriggja liða en hann segir það taka nokkuð á. „Þetta tekur á allt, sálina og annað. Ég er auðvitað ekki einn í þessu heldur. Þegar við erum búin að koma okkur fyrir á einum stað þá þurfum við stundum að rífa okkur upp aftur. Þetta er búið að vera svona. Að koma heim er líka gott upp á lífið að gera. Ég er til dæmis varla búinn að ná einu fjölskylduboði undanfarin fimm ár og það tekur sinn toll líka.“

Kominn tími á velgengni í Keflavík eftir mögur ár

Keflvíkingar voru gríðarlega öflugir fram eftir tímabili í fyrra en svo fór að halla undan fæti þegar leið á. Hörður segir að með hans tilkomu séu Keflvíkingar líklegir til þess að blanda sér í titilbaráttu.
„Ég er fyrst og fremst að fara í klúbbinn Keflavík. Liðið var mjög gott fyrir áramót en svo fataðist þeim flugið. Þetta er flottur leikmannahópur sem er vel hægt að byggja á. Það eru búin að vera mögur ár að undanförnu og það er kominn tími á að gera eitthvað almennilegt í Keflavík. Ég er kannski það hrokafullur að þegar ég bætist við hvaða lið sem er á Íslandi þá held ég að það sé komið í titilbaráttu. Ég geri kannski það óraunhæfar kröfur á sjálfan mig en það er það sem hefur fleytt mér þetta langt í þessu.“

Hörður spilaði eitt tímabil með Njarðvík og er giftur inn mikla Njarðvíkurfjölskyldu. „Ef ég á að vera alveg fullkomlega hreinskilinn þá kitlaði það að fara í Njarðvík. Sérstaklega eftir að Daníel kemur inn sem þjálfari þá kitlaði það að heyra í þeim, en við erum miklir vinir. Svo hefði verið gaman að spila með Loga Gunnars sem var ein af mínum fyrstu fyrirmyndum í körfubolta. Ætli ég sé samt bara ekki orðinn það mikill Keflvíkingur.“

Það er erfitt að skjóta því föstu að Hörður muni leika hérlendis en það myndi sannarlega gleðja íslenska körfuboltaaðdáendur. „Það þyrfti ansi margt að spinnast saman til þess að ég myndi fara út aftur, sem er þó samt möguleiki. Í fullri hreinskilni þá myndi ég segja að það séu helmingslíkur á því að ég verði í Keflavíkurbúning á næsta tímabili. Ef það gerist þá geri ég það mjög glaður og fullur tilhlökkunar.“