Helguvíkurkísilverið United Silicon styrkir Keflavíkurknattspyrnu
Knattspyrnudeild Keflavíkur og United Silicon hafa gert með sér samstarfssamning sem gerir United Silicon einn af stærstu samstarfsaðilum deildarinnar. Samningurinn er til tveggja ára til að byrja með og munu knattspyrnuáhugamenn sjá merki USi á öllum keppnisbúningum deildarinnar að því er segir í frétt á keflavik.is.
United Silicon hefur verið að byggja kísliverksmiðju sína í Helguvík og eru framkvæmdir vel á veg komnar. Þær hafa staðið yfir frá því í ágúst 2014 og stefnt er að því að hefja framleiðslu á kísil í maí 2016. United Silicon er að stórum hluta í eigu Íslendinga og finnst þeim mjög mikilvægt að fyrirtækið taki þátt í samfélaginu í Reykjanesbæ og einnig að styðja við það öfluga barna- og unglingastarf sem unnið er í Keflavík.
Knattspyrnudeildin er gríðarlega ánægð með að fá svona stóran og sterkan samstarfsaðila sem United Silicon er en fyrirtækið hugsar sér að eiga langtíma samstarf með knattspyrnudeildinni.