Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Helgi skoraði bæði mörk Víðismanna
Helgi Þór í leik gegn Hvíta riddaranum í Fótbolta.net-bikarnum í síðustu viku. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 24. júlí 2023 kl. 12:15

Helgi skoraði bæði mörk Víðismanna

Reynismenn eru efstir í 3. deild karla í knattspyrnu með 31 stig en Víðismenn sitja í þriðja sæti með 25 stig, aðeins munar einu stigi á þeim og Kormáki/Hvöt sem eru í öðru sæti. Bæði Reynir og Víðir unnu sína leiki um helgina, Reynir vann Magna 3:1 á Grenivík og Víðismenn unnu 2:1 sigur á Hvíta riddaranum. Markahæsti leikmaður 3. deildar, Kristófer Páll Viðarsson, skoraði eitt mark fyrir Reyni en Helgi Þór Jónsson reyndist hetja Víðismanna þegar hann skoraði bæði mörk Víðis.

Magni - Reynir 1:3

Reynismenn komust í 3:0 með mörkum frá Óðni Jóhannssyni (14'), Sigurði Orra Ingimarssyni (34') og Kristófer Páli Viðarssyni (54') en heimamenn minnkuðu muninn í lok leiks (90').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Reynir hefur unnið síðustu fimm leiki og aðeins tapað tveimur á tímabilinu, það var gegn Augnabliki í annarri umferð og Víði í fjórðu umferð en Reynismenn taka einmitt á móti Víði í næstu umferð.

Kristófer Páll hefur skorað ellefu mörk fyrir Reyni í sumar og er markahæstur í deildinni.

Hvíti riddarinn - Víðir 1:2

Helgi Þór Jónsson kom Víðismönnum í forystu á fimmtu mínútu en heimamenn jöfnuðu á þeirri 24. Helgi var þó ekki búinn að segja sitt síðasta og kom Víði yfir á nýjan leik áður en fyrri hálfleikur var allur (35').

Víðismenn léku manni færri síðustu tuttugu mínúturnar eftir að Ísak John Ævarssyni var sýnt rauða spjaldið (70') en það kom ekki að sök og Víðir landaði mikilvægum sigri í toppbaráttunni.

Helgi Þór hefur skorað sex mörk á tímabilinu, þar á meðal sigurmarkið gegn Reyni í fjórðu umferð.

Grindavík - ÍA 0:2

Það gengur illa hjá Grindvíkingum í Lengjudeild karla þessa stundina en þeir hafa tapað þremur af fjórum síðustu leikjum og gert eitt jafntefli.

Grindavík tók á móti ÍA á laugardaginn og gestirnir tóku forystu snemma í leiknum (5'). ÍA innsiglaði sigurinn á 66. mínútu en Grindvíkingum gengur ekkert fyrir framan mark andstæðinganna, hafa aðeins skorað tvö mörk í síðustu fjórum leikjum.

Símon Logi skoraði þrennu í 3:1 sigri á Ægi í áttundu umferð og eitt mark gegn Þrótti í þeirri níundu. Síðan þá hafa honum verið mislagðir fætur fyrir framan markið.

FHL - Grindavík 4:2

Grindavík lék gegn FHL um helgina eftir hálfsmánaðar hlé í Lengjudeild kvenna. Leikurinn fór fram í Fjarðarbyggðahöllinni á Reyðarfirði og það voru heimakonur sem náðu forystu á 24. mínútu.

Arianna Lynn Veland jafnaði leikinn fyrir Grindavík mínútu síðar (25') en Helga Rut Einarsdóttir varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark (62') og FHL náði því forystu á nýjan leik.

Skömmu síðar juku heimakonur forskotið (65') en Viktoría Sól Sævarsdóttir minnkaði muninn fyrir Grindavík (71').

Lengra komust Grindvíkingar ekki og FHL innsiglaði sigurinn með fjórða markinu í uppbótartíma (90'+3).

Arianna Lynn Veland í leik gegn Augnabliki.

RB - Hörður Í. 4:2

RB heldur toppsæti A-riðils 5. deildar en RB vann Hörð Í. í Reykjaneshöllinni um helgina.

RB lenti tvívegis undir (16' og 51') en mörk heimanna skoruðu þeir Ingimundur Arngrímsson (14' víti) og Paulo Ippolito (68', 78' og 85' víti).


Reynir H. - Hafnir 1:3

Hafnamenn eru í þriðja sæti A-riðils 5. deildar, einu stigi á eftir Úlfunum sem eiga leik til góða. Hafnir unnu góðan útisigur á Reyni í Ólafsvík um helgina.

Mörk Hafnamanna; Friðrik Skúli Reynisson (35'), Þorgils Gauti Halldórsson (60') og Bjartur Logi Kristinsson (70').