Helgi Jónas - „Löngunin mun ráða úrslitum“
Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Grindavíkur er þessa stundina í óðaönn að undirbúa lið sitt fyrir úrslitaleik Powerade-bikarsins sem fram fer á morgun kl: 16 í Laugardalshöll. Við fengum Helga þó til að svara nokkrum spurningum um leikinn. Grindvíkingar hafa verið slakir undanfarið eftir að þeir fengu nýjan erlendan leikmann til liðs við sig í byrjun febrúar. Helgi telur þó að gengi þeirra í deildinni muni ekki hafa áhrif á menn í svona leik
Hvernig leggst leikurinn í ykkur Grindvíkinga?
„Leikurinn leggst mjög vel í mig og mannskapinn. Þetta er kjörið tækifæri til þess að snúa við blaðinu.“
Er öðruvísi að vera að fara í þennan leik sem þjálfari en þegar þú varst leikmaður?
„Já þetta er aðeins öðruvísi. Maður getur víst haft meiri áhrif á leikinn þegar maður er með boltann í höndunum en núna er það í mínu verkahring að skipuleggja og sjá til þess að menn komi tilbúnir í þennan leik.“
Heldurðu að gengi ykkar í deildinni muni hafa áhrif á leikinn um helgina?
„Nei, það á ekki eftir að hafa áhrif á okkur ef menn koma ekki tilbúnir í þennan leik þá er eitthvað mikið að.“
Hvernig muntu leggja upp með að stoppa KR?
„Við þurfum að stoppa Pavel, Marcus og Brynjar. Svo þurfum við að vinna frákast baráttuna við stóru mennina þeirra.“
Hvað mun ráða úrslitum í leiknum?
„Löngunin til þess að taka á móti titlinum. Það lið sem vill þetta meira mun vinna því þessi lið eru mjög svipuð, þó svo að við höfum ekki verið að sýna það undanfarið,“ sagði Helgi að lokum.
myndir: Helgi Jónas Guðfinnsson verður að líkindum ekki í búning á morgun.
Að neðan: Mikið mun mæða á Páli Axeli Vilbergssyni í leik þessum enda býr hann yfir mikilli reynslu.