Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Helgi Birkir í sérflokki
Laugardagur 13. september 2003 kl. 21:37

Helgi Birkir í sérflokki

Helgi Birkir Þórisson úr GS er með níu högga forskot fyrir lokahringinn á lokamótinu á Toyotamótaröðinni sem fram fer á Hvaleyrarholtsvelli í Hafnarfirði. Hann lék fyrri hringinn í dag á 69 höggum og þann síðari á 70 höggum og er á samtals 139 höggum, eða 3 höggum undir pari. Lokahringur mótsins fer fram á morgun og þá verða stigameistarar GSÍ krýndir.

Helgi Birkir fékk sex fugla á fyrri hringnum í dag, 8 pör og 4 skolla. Á seinni hringnum fékk hann þrjá fugla, 13 pör og 2 skolla. Hann þótti leika ótrúlega vel, sérstaklega ef mið er tekið af slæmum aðstæðum, roki og rigningu.

Þrír kylfingar eru níu höggum á eftir Helga Birki, þeir Björgvin Sigurbergsson GK, Magnús Lárusson, GKj og Örn Ævar Hjartarson, GS eru allir á samtals 148 höggum.

Heiðar Davíð Bragson úr GKj, sem er með forystu í stigakeppninni fyrir lokamótið, náði sér ekki vel á strik í dag og lék á 82 og 81 höggi og er samtals á 163 höggum, eða 21 höggi yfir pari og er í 23. sæti.

Tinna Jóhannsdóttir úr GK er á besta skorinu eftir tvo fyrstu hringina í kvennaflokki. Hún lék á 82 og 76 höggum í dag og er á samtals 158 höggum, eða 16 höggum yfir pari. Nína Björg Geirsdóttir, GKj, er í öðru sæti á 163 höggum og Ragnhildur Sigurðardóttir í þriðja sæti á 164 höggum. Ragnhildur er langefst að stigum fyrir lokamótið og er næsta örugg með stigameistaratitilinn í kvennaflokki.

Hægt er að nálgast úrslit og stöðuna á Golf.is

 

Morgunblaðið á Netinu greinir frá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024