Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Helga Rut Hallgrímsdóttir yfir til Keflavíkur
Fimmtudagur 21. júlí 2011 kl. 17:53

Helga Rut Hallgrímsdóttir yfir til Keflavíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Körfuknattleikskonan úr Grindavík, Helga Rut Hallgrímsdóttir skrifaði nú í dag undir samning við Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur í körfubolta kvenna en hún hefur leikið með Grindvíkingum allan sinn feril.

Helga var feikilega öflug í liði Grindvíkinga í fyrra þar sem hún skoraði 12.3 stig að meðaltali og reif niður tæp 11 fráköst í leik.

Eftir brotthvarf Bryndísar Guðmundsdóttur frá Keflavík er með sanni sagt að Helga sé leikmaður sem að Keflvíkingar þufa á að halda.

„Hún er mjög duglegur frákastari og mjög góður leikmaður undir körfunni og það er bara það sem okkur vantar. Það er mjög ánægjulegt að hún vilji koma til okkar og ég tel að hún eigi eftir að hjálpa okkur gríðarlega mikið,“ sagði Falur Harðarsson í samtali við Víkurfréttir.

„Þegar svona kemur upp eins og með Bryndísi þá sjá aðrir leikmenn eins og Helga tækifæri og stökkva á það,“ bætti Falur við.

Helga sagðist vera sátt við þessa ákvörðun en hún sagði þetta vissulega vera erfitt. „Mér fannst ég þurfa á breytingu að halda og það eru einhverjar breytingar framundan hjá Grindavík. Mér fannst ég þurfa að gera þetta til að ná mínum markmiðum. Það er spennandi að vita af möguleikum á titlum og ég tel Keflvíkinga eiga mikla möguleika á titlum á næsta tímabili. Keflvíkingar eru alltaf með markmið um að vinna titla og það freistar svolítið,“ sagði Helga sem augljóslega var létt yfir því að vera búin að skrifa undir.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun og það tók mig langan tima að ákveða þetta. Grindavíkurhjartað er sterkt og þetta var svakalega erfitt, en ég tel þetta vera rétta ákvörðun fyrir mig,“ sagði Helga Rut nýjasti leikmaður Keflavíkur að lokum.

Helga Rut og Hermann Helgason staðfesta samninginn með því að kless'ann.