Heitt í kolunum í grannaslagnum
Grindvíkingar sigruðu í Sláturhúsinu
Mönnum var heitt í hamsi í grannaslag Keflvíkinga og Grindvíkinga í Domino's deild karla sem fram fór á Sunnubrautinni í kvöld. Grindvíkingar höfðu sigur í miklum baráttuleik þar sem allt var lagt í sölurnar. Boðið var upp á tæknivillur, ásetningsvillur, troðslur og stemningu sem jafnast á við úrslitakeppnina í kvöld. Lokatölur 88:101 Grindavík í vil og ljóst að KR-ingar sitja nú einir á toppi deildarinnar. Keflvíkingar eru í öðru sæti og með sigri eru Grindvíkingar að koma sér inn í úrslitakeppnina, en liðið hefur nú nælt í tvo mikilvæga sigra gegn Stjörnunni og nú Keflavík.
Grindvíkingar náðu góðri forystu í þriðja leikhluta og segja mætti að þeir hafi lagt grunninn að sigrinum þá, eftir að munurinn var fimm stig í hálfleik Grindvíkingum í vil.
Aðeins komust fimm menn á blað hjá gestunum úr Grindavík og þrír leikmenn báru sóknarleikinn á herðum sér. Jón Axel var hreint frábær í kvöld en hann skoraði 35 stig, bauð upp á 37 í framlag og tíu fiskaðar villur, sem gerir 20 vítaskot hjá kappanum. Jóhann Árni Ólafsson skoraði 25 stig og Charles Garcia 23. Aðrir Leikmenn sem komust á blað voru Ómar Sævarsson með 10 stig og Þorleifur Ólafsson með 8 stig.
Hjá Keflvíkingum var Jerome Hill með 29 stig og 13 fráköst. Guðmundur Jónsson var með 17 stig og Magnús Már Traustason 13. Talsvert munaði um skort á framlagi frá bakvörðunum Val Orra og Reggie en þeir hafa átt betri daga.
Jóhann Árni liggur á gólfinu eftir að Magnús Gunnarsson fékk dæmda á sig ásetningsvillu.
Magnús lét Jóhann aðeins finna fyrir sér eftir að vítaskot Grindvíkingsins rötuðu ekki rétta leið.
Valur Orri lét Garcia heyra það eftir að hafa varið skot hans.
Jón Axel var stórkostlegur í leiknum og leiddi sína menn áfram til sigurs.