Heimsmet í Vatnaveröld
Heimsmet fatlaðra, ásamt tveimur Íslandsmetum fatlaðra, er það sem hæst bar á Landsbankamótinu í sundi í ár en mótið fór fram í Vatnaveröld um nýliðna helgi.
Heimsmetið var slegið af Hirti Má Ingvarssyni úr Firði í 1500m skriðsundi en hann keppir í flokki S6. Fyrsta heimsmetið sem slegið er í Vatnaveröldinni er því orðið staðreynd.
Thelma Björg Björnsdóttir ÍFR sló jafnframt Íslandsmetin í 50 og 100m bringusundi í sínum fötlunarflokki. Bæði þessi met voru í fullorðinsflokki í 50m laug.
Fjögurhundruð og tíu sundmenn frá 15 félögum tóku þátt í Landsbankamótinu. Mörg sterk sund sáust og hörð keppni var í mörgum greinum. Mótið þótti afar vel heppnað, en keppt var fyrir hádegi í 25m laug í flokkunum 12 ára og yngri en í 50m laug eftir hádegi í aldursflokkunum 13 ára og eldri.