Heimavöllurinn gerir útslagið fyrir Keflavík
Segir Guðjón Skúlason
Stórskyttan Guðjón Skúlason er fyrir löngu síðan orðinn goðsögn í augum Keflvíkinga. Hann reyndi hins vegar fyrir sér hjá nágrönnunum í Grindavík um tíma en hann lék með liðinu tímabilið 1994-95. Guðjón á fjölmarga mikilvæga bikarleiki í reynslubankanum og veit því alveg hvað þarf til að sigra slíka leiki.
Við fengum Guðjón til að rýna í bikarleik dagsins en Keflvíkingar fá Grindvíkinga í heimsókn í undanúrslitum Powerade-bikarsins í körfubolta klukkan 15:00.
„Leikur Keflavíkur og Grindavíkur verður mjög spennandi þar sem Keflavík er nýbúið að vinna erfiðan leik við þá í Grindavík. Samkvæmt því ættu þeir að tapa næsta, því oft tapast næsti leikur eftir sigurleik, sérstaklega ef hann er í bikar,“ segir Guðjón. Hann telur Keflvíkinga vera komna á gott skrið með nýjan útlending sem kemur með kraft í liðið. „Baptist spilar hörku vörn og er með flott tilþrif í sókn, eina áhyggjuefnið Keflvíkinga er lítil dreyfing á stigaskori og hugsanleg villuvandræði lykilmanna, en þjálfarinn er þarna til að leysa þessi mál. Grindavík vill væntanlega gleyma síðasta leik og hefna fyrir hann en ég tel heimavöllinn það sterkan að Keflvíkingar vinni með fimm stigum,“ sagði Guðjón.