Heimasíða Íþróttabandalags Reykjanesbæjar enduvakin
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar hefur endurvakið og uppfært heimasíðuna sína irb.is. Ingigerður Sæmundsdóttir, formaður ÍRB segir að síðan verði fréttatengd og miðlæg upplýsingaveita allra aðildarfélaga Bandalagsins, en þau eru ellefu talsins sem heyra undir það. Þess má geta að Keflavík og Njarðvík með þrettán deildir starfandi innan sinna vébanda.
„Við verðum með fréttir af starfi félaganna, ásamt fundargerðum og einnig upplýsingum sem koma frá ÍSÍ. Þarna getum við haft allar upplýsingar á einum stað en þess má einnig geta að á síðunni er viðburðadagatal þar sem hægt er að sjá fundi, mót, leiki og fleira, einnig er hægt að nálgast upplýsingar á Facebook-síðu félagsins.
Næsta skref hjá okkur verður að fá aðildarfélögin til að vera í tengslum við okkur þannig að við séum öll með sömu upplýsingarnar, það er svo margt í boði hér í Reykjanesbæ, íþróttirnar eru margar og mikil fjölbreytni.“
Í fyrra voru 167 Íslandsmeistarar úr Reykjanesbæ og er meðal annars aksturskona ársins frá Reykjanesbæ, Emelía Rut. „Við eigum afreksmenn á landsvísu og erum með afreksfólk í mörgum greinum. Það er mikið starf í gangi innan félaga ÍRB en svona góðir íþróttamenn og svona gott starf verður ekki til nema vegna þess að við erum með frábært fólk í félögunum sem vinnur mikla sjálfboðavinnu. Við erum einstaklega heppin hér í Reykjanesbæ hvað við erum með flotta og öfluga sjálfboðaliða, sú vinna verður aldrei metin til fjár.“
Inga hvetur félögin til þess að vera dugleg að senda inn fréttir og tilkynningar á síðuna og bendir einnig á að iðkendur geti líka sent inn fréttir af því sem þeir eru að gera sjálfir. Á heimasíðunni má t.a.m. finna hnapp um kynferðislegt ofbeldi og áreiti sem beinir fólki inn á fræðslusíðu ÍSÍ, í kjölfar MeToo-umræðunnar er greinilega mikil þörf á að fólk geti aflað sér upplýsinga um hvernig skuli bregðast við og hvert sé hægt að leita við slíkar aðstæður.
„Við erum mjög stolt af þessari síðu og erum spennt fyrir henni, Jóhann Páll Kristbjörnsson, varaformaður ÍRB, sá um uppsetningu nýju síðunnar og færi ég honum kærar þakkir fyrir. Síðan er enn í þróun og allar ábendingar eru vel þegnar,“ segir Inga að lokum.
Slóðin á heimasíðu ÍRB er www.irb.is.