Heilsuskóli Keilis flytur inn heimsklassa fyrirlesara
Heilsuskóli Keilis stendur fyrir 3ja daga Þjálfarabúðum í september. Um er að ræða heimsklassa námskeið í styrktar- og ástandsþjálfun með fjórum þjálfurum og kennurum með áralanga reynslu sem allir koma frá Bandaríkjunum. Róbert Magnússon, sérfræðingur í íþróttasjúkraþjálfun, sem nú er staddur í Danmörku með U-21 árs landsliðinu er einn margra sem hafa nú þegar skráð sig en hann segir Þjálfarabúðirnar mikilvæga endurmenntun fyrir alla sem vilja halda sér vel upplýstum og fá nýjar hugmyndir frá topp fræðifólki í greininni og undir það tekur Helgi Guðfinnsson styrktarþjálfari og körfuknattleiksþjálfari sem ætlar ekki að láta sig vanta. ,,Nú þegar kreppir að hafa þjálfarar minni pening til endurmenntunar og því munar miklu að þurfa ekki að fara erlendis til að sækja stór námskeið“ bætir Helgi við.
Þjálfarabúðirnar í september eru þær þriðju í röðinni hjá Keili. Áherslan í þetta skiptið verður á æfingaval, stignun á æfingum, ólympískar lyftingar, djúpvöðvakerfið og þyngdartap út frá næringu og sálfræði. Stærsta nafnið í flokki kennara er Michael Boyle sem gefið hefur út fjöldann allan af kennsludiskum og bókum um þjálfun. Æfingastöð Boyle var valin sú besta í Bandaríkjunum árið 2010 af tímaritinu Mens Health. Forskráningartilboð á Þjálfarabúðirnar er til 20. júní. Nánar á www.keilir.net/heilsa.