Heillum horfnir
HK og Njarðvík mættust á Kópavogsvelli í kvöld þar sem heimamenn sigruðu 3-0. Mörk HK gerðu þeir Hörður Már Magnússon og Stefán Eggertssson en þriðja markið var sjálfsmark.
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og þurfti köflóttur dómari leiksins, Egill Már Markússon, að hafa sig allan í frammi til þess að halda gestunum í skefjum. Fyrsta markverða færi leiksins kom á 8. mínútu þegar Atli Guðnason komst einn upp að endamörkum Njarðvíkinga en fipaðist um leið og hann ætlaði að skjóta svo ekkert varð úr þeirri tilraun.
Eftir þetta færi HK manna voru bæði lið að þreifa fyrir sér í sókninni með litlum árangri. Til tíðinda dró á 38. mínútu leiksins, Njarðvíkingar hugðust hreinsa boltann úr sínum teig sem þeir og gerðu. Ekki vildi betur til en að boltinn fór í leikmann HK og af honum í hendur eins varnarmanns Njarðvíkurliðsins sem staddur var inni í teig. Þetta atvik gerðist mjög hratt en Egill Már, dómari, sá þann kostinn vænstan að dæma vítaspyrnu sem eflaust mætti ræða fram og aftur. Spyrnuna tók Hörður Már Magnússon og skoraði hann örugglega þar sem Friðrik Árnason, markvörður Njarðvíkinga valdi rangt horn til þess að skutla sér í. HK 1-0 Njarðvík.
Aðeins 6 mínútum síðar skoruðu HK-menn annað mark, Stefán Eggertsson fékk þá góða sendingu inn fyrir vörn gestanna og vippaði hann boltanum glæsilega yfir Friðrik markmann og staðan því 2-0 HK í vil. Eftir þetta mark sigu heimamenn aftar á völlinn og héldu til leikhlés með þægilega stöðu.
Njarðvíkingar komu sterkir til seinni hálfleiks en fátt virtist ganga upp og runnu langflestar sóknarlotur þeirra út í sandinn. Heimamenn höfðu ekki mikið fyrir því að sækja og lögðu mikla áherslu á það að halda hreinu.
Á 70. mínútu áttu Njarðvíkingar aukaspyrnu þar sem boltinn barst inn í teig, Snorri Már Jónsson skallaði þá boltann fyrir mitt mark HK-inga. Hamagangurinn var mikill en boltinn barst að lokum til Michaels Jónssonar, sem kom inn á sem varamaður í liði Njarðvíkur, og lánleysið lét ekki á sér standa þar sem Michael, í ákjósanlegu færi skaut boltanum hátt yfir markið. Heillum horfnir Njarðvíkingar héldu til varnar að loknu færi Michaels til þess að fá á sig sjálfsmark. Atli Guðnason fékk boltann á hægri kantinum og hugðist senda hann fyrir markið en Einar Sigurðsson, varnarmaður Njarðvíkinga fékk sendinguna í sig og af honum fór boltinn í markið. Fleiri urðu mörkin ekki í blíðviðrinu. HK 3-0 Njarðvík.
Að loknum leikjum kvöldsins í 1. deildinni eru Valsmenn enn á toppnum með 25 stig en HK í öðru sæti með 22 stig. Njarðvíkingar eru sem fyrr í 8. sæti með 16 stig eftir 14 leiki. Næsti leikur Njarðvíkinga er þann 19. ágúst þegar þeir fá botnlið Hauka í heimsókn.
VF-mynd/ úr safni