Heiðrún og Hörður leikmenn ársins
Myndir frá lokahófi Keflavíkur
Lokahóf Knattspyrnudeildar Keflavíkur var haldið í félagsheimilinu við Sunnubrautr laugardaginn 28. september. Þar voru veittar viðurkenningar fyrir frammistöðu sumarsins hjá meistaraflokki og 2. flokki karla og kvenna. Auk þess fengu aðstandendur liðanna þakklætisvott fyrir sín störf í sumar.
Hörður Sveinsson var valinn leikmaður ársins hjá meistaraflokki karla og Bojan Stefán Ljubicic var valinn efnilegastur. Hörður fékk einnig gullskóinn en hann var markahæsti leikmaður liðsins í sumar og Elías Már Ómarsson fékk viðurkenningu fyrir mark ársins sem kom gegn Breiðabliki í Pepsi-deildinni. Þá fengu Arnór Ingvi Traustason og Bojan Stefán Ljubicic viðurkenningu fyrir 50 leiki fyrir félagið.
Hjá meistaraflokki kvenna var Heiðrún Sjöfn Þorsteinsdóttir besti leikmaðurinn, Telma Rún Rúnarsdóttir var valinn efnilegust og Lovísa Björgvinsdóttir besti félaginn.
Í 2. flokki karla var Elías Már Ómarsson leikmaður ársins en Ari Steinn Guðmundsson efnilegastur. Sigfús Kristján Pálsson var kjörinn besti félaginn.
Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir var valinn best hjá 2. flokki kvenna. Þar var Sólveig Lind Magnúsdóttir efnilegust og Petra Ruth Rúnarsdóttir besti félaginn.
Hjá eldri flokki var Ragnar Steinarsson leikmaður ársins og Margeir Vilhjálmsson markakóngur.
Að venju var Fjölmiðlagyðjan veitt en hana fá þeir sem deildinni hefur fundist gera íslenskri knattspyrnu hátt undir höfði og þá kannski sérstaklega Keflvíkingum. Að þessu sinni var það Tómas Meyer á Stöð 2 Sport sem hlaut Gyðjuna. Tómas þakkaði fyrir sig með því að taka lagið á hófinu.
Már Gunnarsson fékk svo gjöf frá Keflavíkurliðinu fyrir framlag sitt í sumar en hann hefur verið fremstur í flokki meðal stuðningssveitar liðsins. Már fékk bolta áritaðan af leikmönnum, þjálfurum og stjórnarmönnum.
Hér má sjá myndasafn frá lokahófinu.
Már Gunnarsson var heiðraður á hófinu.
Leikmenn kvennaliðs Keflavíkur skemmtu sér vel á lokahófinu.