Heiðrún Evrópumeistari með Gerplu í hópfimleikum
„Þetta var ótrúlega gaman og algjör draumur að taka þátt í þessu,“ segir fimleikakonan Heiðrún Rós Þórðardóttir úr Keflavík sem varð Evrópumeistari með liði Gerplu í hópfimleikum á Evrópumótinu sem fram fór um síðustu helgi í Malmö, Svíþjóð. Heiðrún, sem er 27 ára gömul, hóf að æfa með Gerplu árið 2010 eftir að hafa dvalið í Danmörku í fimleikaskóla.
„Ég er búin að æfa með þeim í eitt og hálft ár eða frá því að ég kom heim frá Danmörku. Ég átti ekki von á því fyrir tveimur árum að ég yrði í þessu liði í dag. Ég var þó svo langt frá þeirra getu þá. Um leið og ég fór að æfa með þeim þá fór hins vegar allt að gerast. Ég er búin að bæta mig rosalega mikið á stuttum tíma,“ segir Heiðrún. Hún hætti í fimleikum þegar hún var 18 ára gömul en hóf aftur að æfa fimm árum síðar.
„Ég byrjaði í fimleikum þegar ég var fimm ára gömul en hætti svo þegar ég var 18 ára. Ég byrjaði aftur þegar ég var 23 ára gömul. Eftir að fimleikadeildin hér í Reykjanesbæ fékk aðstöðuna í íþróttaakademíunni þá urðu miklar framfarir og ég ákvað í kjölfarið að fara í fimleikaskóla í Danmörku,“ segir Heiðrún sem varð Norðurlandameistari með Ollerup liðinu á síðasta ári. „Þegar ég kom heim þá fór ég að æfa með Gerplu á fullu og stefndi að því að komast á Evrópumótið.“
Gríðarleg samkeppni hjá Gerplu
Keppnissveit Gerplu í hópfimleikum er í heimsmælikvarða og það er síður en svo auðvelt að vinna sér sæti í liðinu. „Samkeppnin hjá Gerplu er gríðarleg. Það voru upphaflega 23 stelpur í liðinu en svo skorið niður í 16 manna hóp sem fór til Svíþjóðar. Við erum allar mjög jafnar í þessu liði þó svo að ég hafi ekki keppt í neinni grein í þetta sinn þá er ég ekkert síðri fimleikamaður. Það eru margar stelpur í liðinu með mikla reynslu og það er valið í liðið eftir því. Ég lærði hins vegar gríðarlega mikið á þessari keppni og sú reynsla sem ég fékk mun örugglega nýtast mér í framtíðinni,“ segir Heiðrún. Hún er óviss um hvort hún að haldi áfram að æfa með Gerplu.
„Mig langar alls ekki að hætta í fimleikum því þetta er svo ótrúlega gaman. Þetta tekur hins vegar mikinn tíma og það er erfitt að vera sífellt að keyra á milli. Ég er að velta þessu fyrir mér. Það væri frábært að vera aftur með á Evrópumóti eftir tvö ár. Það er Norðurlandamót á næsta ári þannig að það má segja að það sé stórmót á hverju ári. Gerpla hefur unnið alla titla sem hægt er að vinna. Auðvitað væri æðislegt að vera aftur með.“
Heiðrún er menntaður íþróttafræðingur og sér fyrir sér að snúa sér að þjálfun þegar keppnisferlinum lýkur. „Já, það eru góðar líkur á því og þá helst í kringum fimleika. Það væri mjög gaman þjálfa fimleika hér í Reykjanesbæ í framtíðinni.“