Heiðarskóli og Holtaskóli Grunnskólameistarar í sundi
Yfirburðir skólanna frá Reykjanesbæ
Grunnskólamót Íslands í sundi var haldið í fyrsta sinn í gær, þriðjudaginn 8. apríl en þar fögnuðu Holtaskóli og Heiðarskóli frá Reykjanesbæ sigri. Keppt var í 8x25 metra boðsundi með frjálsri aðferð þar sem fjórir strákar og fjórar stelpur voru í hverju liði skólanna. Yngra lið Holtaskóla gerði sér lítið fyrir og sigraði sinn aldursflokk með glæsibrag. Það verður ekki annað sagt en að Holtaskóli sé fullur af mögnuðu íþróttafólki en skólinn hefur sem kunnugt er sigrað Skólahreysti undanfarin þrjú ár.
Lið Heiðarskóla í Reykjanesbæ sigraði í eldri flokki, Akurskóli hafnaði í öðru sæti og Holtaskóli í því þriðja, en það verður að teljast magnaður árangur hjá þessum skólum Reykjanesbæjar. Alls voru 19 lið sem mættu til keppni og um 250 keppendur.