Hefur fundið stöðugleika á Íslandi
– Var við það að skrifa undir samning við spænska úrvalsdeildarliðið Espanyol
Ígnacio „Nacho“ Heras Anglada hefur verið mikilvægur hlekkur í röðum Keflvíkinga síðustu árin. Nacho átti frábært tímabil í fyrra í Bestu deild karla í knattspyrnu og var valinn besti leikmaður Keflavíkur á leiktíðinni. Víkurfréttir spjölluðu við Nacho en Íslandsmótið í knattspyrnu karla hófst um páskahelgina þar sem Keflavík hafði betur gegn Fylki í fyrsta leik.
Hvernig var leikurinn á móti Fylki?
„Við áttum skilið að vinna. Við vorum betri aðilinn og spilamennskan var betri en hún hefur verið á undirbúningstímabilinu,“ segir Nacho sem var vitanlega í byrjunarliði.
„Í seinni hálfleik voru við mikið betri en þeir og skoruðum tvö mörk. Þetta eflir sjálfstraustið og við erum tilbúnir að taka á móti KR í næsta leik.“
Ólukkan bankaði upp á
Nacho hefur leikið á Íslandi frá árinu 2017 þegar hann gekk til liðs við Víking Ólafsvík. Hann flutti sig til Keflavíkur fyrir tímabilið 2020 og hefur síðan þá verið lykilmaður í liðinu.
Nacho kemur frá spænsku borginn Madrid þar sem hann lék með Real Madrid og Atletico Madrid en hann þótti efnilegur knattspyrnumaður, svo efnilegur að hann var við það að skrifa undir samning við úrvalsdeildarlið Espanyol þegar ólukkan bankaði upp á hjá honum.
„Allt breyttist hjá mér á augabragði. Ég fór til Barcelona og var að spila með varaliði Espanyol en lenti í slæmum hnémeiðslum, braut á mér hnéð,“ segir Nacho sem var þá við það að komast í aðallið Espanyol. „Þetta gerðist á versta tíma. Ég hafði talað við íþróttastjórann viku fyrr um að skrifa undir samning en svona er þetta.
Ég reyndi að koma til baka en hlutir voru ekki að ganga upp á Spáni, ástandið þar var slæmt. Þá fór ég til Ungverjalands og spilaði í annarri deild. Þar fengum við leikmenn ekki borgað í sex mánuði og þá fór ég til Bandaríkjanna. Þar lenti ég líka í vandræðum, liðið vildi semja við mig en hafði ekki pláss fyrir fleiri erlenda leikmenn. Ég fór því aftur heim til Spánar og var satt að segja við það að hætta í fótbolta, á þessum tíma var ekkert að ganga upp.“
Fann stöðugleika á Íslandi
Nacho sem var 25 ára þegar hann sneri aftur til Spánar segir að kunningi hans, sem var að spila hérlendis, hafi þá sett sig í samband og stungið upp á því að Nacho kæmi til Íslands.
„Hann hafði reyndar stungið upp á því áður en í þetta skipti sagði ég já, því ekki. Mér var lofað samningi, ég fengi greidd laun. Efnahagsástandið á Spáni var í molum og ég myndi segja að hér á Íslandi hafi ég fundið stöðugleika. Eftir að hafa spilað hér í tvö, þrjú ár var fólk farið að þekkja mig; leikmenn, dómarar, þjálfarar – ég fann að fólkið elskaði mig og fór að að velta fyrir mér til hvers ég hefði að snúa aftur á Spáni. Ferillinn minn er hér og konan mín er hér. Við giftum okkur í desember og eigum von á barni bráðlega, það er upphafið að öllu,“ segir lukkulegur Nacho sem hefur aðlagast vel að íslensku samfélagi.
„Ég held að það sé mikilvægt fyrir erlenda leikmenn að verða hluti af samfélaginu. Sumir koma hingað bara í nokkra mánuði til að verða sér út um smá pening og vinna í kringum fótboltann. Ég ákvað að vera hér í nokkur ár, þannig að ég verð hér líklega í einhver ár til viðbótar. Við konan mín erum hamingjusöm hérna en ég reikna ekki með að við komum til með að verja allri ævinni hér því veðrið er ekki alveg það ákjósanlegasta,“ segir hann og hlær. „Við verðum hér í einhver ár í viðbót, jafnvel einhver ár eftir að fótboltaferlinum lýkur hjá mér. Svo flytjum við örugglega á einhvern hlýrri stað en Ísland.“
Nacho þjálfar fjórða flokk hjá Keflavík og þar að auki þjálfar hann bláa liðið í Keflavík en bláa liðið er hugsað sem vettvangur fyrir efnilega leikmenn sem eru líklegir til að verða meistaraflokksleikmenn.
„Við höfum verið prófa okkur áfram með þetta bláa lið í nokkur ár en það er í raun og veru lið á milli meistaraflokks og annars flokks. Þetta er úrvalshópur efnilegra leikmanna í Keflavík og það er eitt af markmiðum félagsins að hjálpa okkar leikmönnum til að þroskast og ná fram því besta. Þetta gerum við með aukaæfingum en í þessum hópi eru strákar úr öðrum og þriðja flokki. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og góð hugmynd.“
Við ræddum það að áður fyrr hafi liðin getað teflt fram fyrsta flokki sem tók þátt í Íslandsmóti KSÍ en það hafi verið lagt niður fyrir mörgum árum.
„Þetta er svipuð hugmynd, að gefa þeim færi á að þróa sinn leik og taka skrefið upp á við. Við reynum að fá æfingaleiki gegn meistaraflokksliðum og það færir þá kannski nær því að komast í meistaraflokk. Hver veit?
Ég hef heyrt að þá sé verið að undirbúa deild fyrir varalið á Íslandi, eitthvað svipað fyrirkomulag og þegar fyrsti flokkur var býst ég við. Ég veit ekki hvað er til í því en þetta hef ég heyrt. Að mínu mati er það mjög mikilvægt fyrir liðin, það heldur leikmönnum á tánum og gerir þá betur undirbúna til að leika í meistaraflokki þegar kallið kemur.“
Hefur trú á tímabilinu
Hvernig leggst tímabilið í Bestu deildinni í þig?
„Allir eru að segja að þetta verði erfitt hjá okkur. Satt best að segja hefur okkur ekki vegnað allt of vel á undirbúnigstímanum og kannski er liðið veikara en fyrir ári síðan, það hafa orðið miklar mannabreytingar. Um leið og við erum komnir á völlin þá er ég viss um að allir munu leggja sig 100% fram og við sjáum hvað gerist. Allavega ætlum við að reyna að byrja tímabilið betur en í fyrra þegar mig minnir að við höfum tapað fyrstu fjórum leikjunum.
Það sem ég get lofað er að við munum berjast frá fyrstu mínútu eins og alltaf, Keflavík er erfitt lið að spila á móti. Látum aðra um að tala okkur niður og vonandi náum við að stinga upp í þá,“ sagði Nacho borubrattur að lokum.