Hefur enga trú á því að Butler verði áfram
„Haukar vildu þetta meira en við,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir í samtali við Víkurfréttir í lok leiks Keflvíkinga og Hauka í undanúrslitum Iceland Express-deildar kvenna þar sem Haukar komust áfram eftir stórsigur. „Þær eru ekkert endilega með betra lið en við en þær gerðu þetta saman á meðan við vorum bara hver í sínu horni.“ Lokatölur urðu 52-75 en munurinn fór í 34 stig þegar mest var.
Pálína sagði að það væri ömulegt að fara í sumarfrí í lok mars og hún fór ekki leynt með það að útlendingarnir í liðinu voru ekki að standa sig. „Ég hef engar skýringar á því hvers vegna Jaleesa (Butler) var ekki með hugann við verkefnið. Ætli hún vilji bara ekki fara heim, sé komin með heimþrá. Ekki það að ég ætli að kenna útlendingunum um en þetta var alveg skelfilegt hér í kvöld,“ sagði Pálína að lokum.
Falur Harðarson tók í sama streng og var ómyrkur í máli. „Þær löbbuðu yfir okkur á öllum vígstöðum sem viðkoma baráttu.“ Falur er á því að Íslendingarnir í liðunum eigi að bera liðin uppi í deildinni og skapa þá stemningu sem þarf að viðhalda. Þó var hann ekki sáttur með framlag atvinnumanna sinna. „Butler var hrikaleg í úrslitakeppninni og í raun í lok tímabils. Við ræddum málin og hún lofaði öllu fögru en stóð svo ekki við neitt. Ég hef enga trú á því að hún verði áfram,“ sagði Falur að lokum.
Nánari viðtöl við Fal og Pálínu birtast á vf.is á morgun.