Hefur ekki tekið ákvörðun
Miðjumaðurinn áræðni og fyrirliði Keflavíkur, Jónas Guðni Sævarsson, hefur ekki tekið neina ákvörðun um hvað verður hjá honum í boltanum á næstu leiktíð. Jónas á eitt ár eftir af samningi sínum við Keflavík en sagðist í samtali við Víkurfréttir vita af áhuga fjölmargra liða í Landsbankadeildinni.
,,Ég er að skoða mín mál og Keflavík er að fara yfir sín mál. Félagsskiptaglugginn verður ekki opinn aftur fyrr en í janúar svo það er enn nokkuð langt í hann. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum við Keflavík en ég er að skoða hvað sé best í stöðunni fyrir mig,” sagði Jónas. ,,Auðvitað vil ég vera í Keflavík því ég er Keflvíkingur út í gegn en ég er líka að hugsa um hvað sé best fyrir mig sem leikmann en ég hef ekki tekið neina ákvörðun. Ég er að leita út og að reyna að láta þann draum rætast að komast út sem atvinnumaður,” sagði Jónas og kvaðst vita líka af áhuga fjölmargra liða á sér hér heima.
VF-Mynd/ [email protected] - Jónas í leik með Keflavík gegn Fram í ágúst á nýliðinni leiktíð.