„Hefur dreymt um þetta síðan ég var lítill gutti“
- Jón Axel leikur stærsta leik ferilsins hingað til
Jón Axel Guðmundsson leikur körfubolta með Davidson í háskólaboltanum í Bandaríkjunum en liðið tryggði sér á dögunum sæti í úrslitakeppni háskólaboltans eða „March Madness“ eftir sigur í Atlantic-10 deild háskólaboltans. Þeir sem fylgjast með körfubolta vestanhafs vita að „March Madness“ er eitthvað sem allir körfuboltaaðdáendur bíða spenntir eftir. Við heyrðum í Jóni Axel eftir sigurinn um helgina.
Hvernig tilfinning var það að tryggja sér sigur í deildinni?
Hún var alveg geggjuð. Þetta er klárlega það skemmtilegasta sem ég hef gert á mínum ferli. En tilfinningin að vera komin í „March Madness“ var ennþá betri. Það er eitthvað sem mig hefur dreymt um að komast í síðan ég var lítill gutti.
Þú áttir magnaða körfu í lok leiks í deildinni um daginn sem vakti mikla athygli, var það ekki svolítið skemmtilegt?
Það var geggjað og það bjó til smá stemningu í hópnum að vita að við gætum unnið toppliðið. Þannig við komum með gott „momentum“ inn í úrslitakeppnina sem var mjög mikilvægt fyrir okkur.
Liðið komst síðast í „March Madness“ árið 2015, er spenna í skólanum eftir að þið komust áfram?
Já það er allt brjálað hérna yfir þessu. Fólk vildi fá frí í skólanum og allt! En það eru bara allir mjög hamingjusamir fyrir okkar hönd og þetta er svakalega stórt að komast í eitthvað svona þannig að sjálfsögðu er mikil spenna yfir fólki í Davidson.
Hvernig er stemningin á áhorfendapöllunum núna?
Hún er mjög góð, við erum oftast með margt fólk sem styður við bakið á okkur þannig það er bara líf og fjör.
Hvað skiptir mestu máli hjá ykkur núna?
Bara halda áfram að spila fast og njóta þess hvað við erum að gera saman. Við erum ekkert að hugsa eitthvað alltof mikið, við vitum að ef við komum tilbúnir og berjumst hart þá munum við vinna næsta leik.