Hefja móðurmálskennslu fyrir tvítyngd börn
Móðurmálskennsla fyrir tvítyngd börn á Suðurnesjum hefst laugardaginn 6. febrúar næstkomandi í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ. Það eru samtökin Móðurmál sem standa að kennslunni en þau hafa staðið fyrir slíkri kennslu í Reykjavík í 22 ár.
Kriselle Lou og Jurgita Milleriene eru þessa dagana að skipuleggja kennsluna og segja þær undirbúninginn hafa gengið vel enda séu allir sem þær leita til boðnir og búnir að hjálpa. Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar styður við verkefnið, meðal annars með því að útvega húsnæði. „Það er virkilega gaman hvað allir eru tilbúnir í þetta. Þetta er stórt skref fram á við fyrir fjölmenningu að hefja móðurmálskennslu fyrir tvítyngd börn hér á Suðurnesjum,“ segir Jurgita. Kriselle bætir við að viðhorfið á Íslandi gagnvart fjölmenningu sé alltaf að verða jákvæðara. „Það er svo margt jákvætt að gerast, eins og til dæmis þættirnir Rætur sem sýndir eru á RÚV þessa dagana. Ég er svo þakklát fyrir þessa þróun,“ segir hún.
Styrkir sjálfsmynd barna
Á Suðurnesjum og á Vestfjörðum búa hlutfallslega flestir innflytjendur á Íslandi eða rétt rúmlega 13 prósent íbúa. „Rannsóknir sýna að ef börn eru góð í sínu móðurmáli eiga þau auðveldara með að læra íslensku,“ segir Kriselle. „Í lögum eru ákvæði um að öll börn hafi rétt til að læra sitt tungumál en það hefur reynst erfitt að fylgja því eftir því það hefur vantað kennara. Því hafa það aðallega verið foreldrar sem hafa kennt börnum sínum móðurmálið.“ Hún bendir á að ekki sé æskilegt að aðeins eitt foreldri kenni barni sínu heilt tungumál því það lærist að miklu leyti félagslega. „Það styrkir því börnin að hitta aðra sem tala tungumálið þeirra. Sum þeirra óttast að foreldrar þeirra tali skrýtið tungumál og eru feimin við að nota það svo það er mjög gott fyrir sjálfsmynd þeirra að tala á móðurmáli sínu við önnur börn,“ segir hún.
Kennarar hjá Móðurmáli kenna allir í sjálfboðastarfi og hafa þegar sjö kennarar skráð sig í Reykjanesbæ. Til að byrja með verða kennd fimm tungumál; arabíska, persneska, filippeyska, pólska, enska og að öllum líkindum litháíska. Kriselle og Jurgita eiga von á því að tungumálunum fjölgi svo þegar fram í sækir. Jurgita hefur séð um kennslu í litháísku í Reykjavík í tólf ár og hefur því mikla reynslu af starfinu. Nemendum verður skipt í hópa eftir aldri. Kriselle ætlar að kenna tveimur hópum filippeysku, þriggja til fimm ára og sex til tíu ára.
Margir hafa sótt kennslu til Reykjavíkur
Jurgita er kennari í Háaleitisskóla á Ásbrú og Kriselle er meistaranemi í uppeldis- og menntunarfræðum. Þær eru báðar búsettar í Reykjanesbæ og hafa keyrt um helgar með sín börn til Reykjavíkur í móðurmálskennslu. Þær segja margar fjölskyldur af Suðurnesjum gera það sama og því verði mikið hagræði af því að geta sótt námið á svæðinu.
Öll tvítyngd börn á Suðurnesjum eru velkomin í móðurmálsnámið. Nánari upplýsingar má nálgast á vefnum www.modurmal.com.
Nemendur í litháísku gera sér glaðan dag.
Nemendur í filipeysku hjá Móðurmáli í Reykjavík. Á næstu dögum hefst kennsla í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ.