Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Hefðin heldur áfram á Keflavíkurvelli
Föstudagur 27. maí 2005 kl. 10:08

Hefðin heldur áfram á Keflavíkurvelli

Keflavík vann verðskuldaðan sigur á KR í gærkvöld, 2-1. Þannig máttu KR-ingar sætta sig við enn eitt tapið á Keflavíkurvelli.

Fyrir leikinn var mínútuþögn til minningar um Gísla Torfaon sem lést í síðstu viku, en hann var einn besti knattspyrnumaður Keflvíkinga og lék um 100 leiki með liðinu á 8. áratugnum. Hann varð tvisvar Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari með Gullaldarliðinu. Keflavíkurliðið lék með sorgarbönd af þessu tilefni.

Keflvíkingar byrjuðu miklu betur og stýrðu leiknum. Guðmundur Steinarsson fór strax að láta að sér kveða og reyndi á Kristján Finnbogason í marki KR með tveimur skotum á 8. og 9. mínútu.

Hann var svo réttur maður á réttum stað á 11. mín þegar Baldur Sigurðsson gaf boltann inn í teig. Guðmundur kastaði sér fram og skallaði beint á Kristján en boltinn fór aftur í hann og í markið. Guðmundur átti stórleik og var sífellt á boltanum og geislaði af sjálfstrausti.

Guðmundur var enn á ferðinni á 13.mín þegar hann átti lúmskt skot af löngu færi sem Kristján varði í horn. Skömmu síðar sleppti dómarinn augljósu víti þegar KR-ingur handlék knöttinn innan teigs.

KR var að spila mjög illa í upphafi leiks og ógnuðu lítið þar til Arnar Gunnlaugsson skallaði yfir úr prýðilegu færi eftir góða fyrirgjöf Sigurvins Ólafssonar.

Hólmar Örn Rúnarsson átti góða rispu um miðjan hálfleikinn og var ógnandi á hægri kanti þar sem hann fór illa með Helmis Matute annars ágætan bakvörð KR. Þá voru framherjarnir Hörður og Guðmundur skæðir og létu varnarmenn hafa fyrir hlutunum.

Á 28. mín átti Guðmundur glæsilegt markskot með hjólhestaspyrnu sem fór framhjá og hinum megin á vellinum komst Grétar hjartarson nálægt því að skora, en glæsilegt skot hans úr aukaspyrnu hafnaði í samskeytunum.

Á 41. mín jöfnuðu KR-ingar þvert gegn stefnu leiksins þegar Bjarnólfur Lárusson skoraði eftir hornspyrnu. Ómar markvörður missti af fyrirgjöfinni og Bjarnólfur átti ekki í vandræðum með að skora í autt markið úr markteignum.

Ómar sýndi bæði sínar bestu og verstu hliðar í leiknum og eftir glappaskotið í jöfnunarmarkinu varð hann hetja sinna manna þegar hann varði vítaspyrnu Arnars Gunnlaugssonar. Vitaspyrnan var dæmd á Ómar sjálfan fyrir brot á Grétari Hjartarsyni.

Batamerki matti sjá á leik KR-inga í síðari hálfleik en Keflvíkingar voru engu að síður alltaf líklegri í sóknaraðgerðum sínum.

Á 65. mín dró svo til tíðinda þegar KR-ingurinn Ágúst Gylfason fór fullhátt með fót sinn og sparkaði í andlit Baldurs Sigurðssonar innan vítateigs og dómarinn var ekki lengi að benda á punktinn. Guðmundur tók vítaspyrnuna og skoraði af öryggi.

Eftir það var sem vindur væri úr gestunum og fyrir utan góða skalla Rógva  á 84.mínútu og fögnuðu Keflvíkingar vel og lengi eftir að leikurinn var flautaður af.

„Vinnan hefur snúist um að finna karakterinn í þessu liði og þannig finnum við leiðina að marki andstæðinganna,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga sigurreifur í leikslok.
„Við vorum með yfirhöndina í þessum leik allt frá upphitun. Kristján þjálfari leggur leikinn vel upp og við reynum að fara eftir því,“ sagði Guðmundur Steinarsson sem hefur hafið leiktíðina með miklum látum. Hann vill þó meina að hann eigi enn meira inni. „Svo er næsti leikur gegn Þrótti og þar ætlum við að sýna Þórarni að hann valdi vitlaust lið og að það er best að vera heima!“

VF-myndir/Héðinn Eiríksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024