Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hef alltaf verið „cocky“
Föstudagur 19. júlí 2013 kl. 10:35

Hef alltaf verið „cocky“

-Segir 19 ára markvörður Keflvíkinga, Bergsteinn Magnússon

Bergsteinn Magnússon er sjálfsagt ekki nafn sem margur knattspyrnuáhugamaðurinn á Íslandi kannast við. Eftir leik Keflvíkinga og Breiðabliks í Pepsi deild karla sem endaði með 1-2 sigri Kópavogsbúa, hefur þessi ungi markvörður sem fékk tækifæri í leiknum vegna meiðslavandræða Keflvíkinga, verið á milli tannanna á fólki. „Ég hafði á tilfinningunni að ég fengi tækifæri með Keflavík í sumar,“ sagði Bergsteinn í samtali við Víkurfréttir. Bersteinn er 19 ára gamall markvörður sem bjó til 9 ára aldurs í Sandgerði. Þaðan flutti hann í Garðinn þar sem hann stundaði sína knattspyrnu næstu árin. Leiðin lág yfir í Keflavík þegar Bersteinn var í 4. flokki, en hann er einmitt nýlega fluttur í Reykjanesbæ. Áður keyrði hann úr Garðinum á æfingar en undanfarin fjögur ár hefur hann æft með meistaraflokki Keflvíkinga.

Keflvíkingar töpuðu þessum fyrsta byrjunarliðsleik Bergsteins í efstu deild og var markvörðurinn ungi gangrýndur af ýmsum fjölmiðlum fyrir seinna markið sem Blikar skoruðu. Þá ákvað hann að láta vaða í úthlaup gegn sóknarmanni Blika sem var einn á auðum sjó í markteig eftir aukaspyrnu. „Ef ég hefði ekki farið í hann hefði hann bara hamrað boltann í netið. Ég taldi strax að um brot hefði verið að ræða og var fremur pirraður út í dómarann,“ sagði Bergsteinn. Eftir að hafa horft á atvikið margsinnis aftur er hann enn sömu skoðunar og telur að á sér hafi verið brotið. Hann gengur þó sáttur frá sínum fyrsta leik og hlustar ekki of mikið á gagnrýni svokallaðra sérfræðinga. Hjörvar Hafliðason í þættinum Pepsi mörkunum hafði m.a. á orði að hefði verið um reynslumeiri markvörð að ræða í atvikinu þá hefði verið dæmt markverðinum í hag. Bergsteinn segir það ekki eiga að skipta máli um hvern ræðir og er ósammála fyrrum markverðinum Hjörvari.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er þó að heyra á Bersteini að hann sé ekki of mikið að velta þessu atviki fyrir sér og hefur þegar beint sjónum sínum að næsta leik, en þá mæta Íslandsmeistarar FH í heimsókn á Nettóvöllinn á laugardag. Bergsteinn viðurkennir að það hafi verið virkilega gaman að spila fyrir framan stúkuna í Keflavík á dögunum en þrátt fyrir allt sé þetta bara fótbolti. Hann býst við því að spila gegn FH þar sem bæði Ómar Jóhannsson og Árni Freyr Ásgeirsson glíma en við meiðsli. „Þegar leikið er gegn FH þá þarf allt að smella hjá öllu liðinu,“ segir Bersteinn sem virðist hvergi banginn og tilbúinn að takast á við hlutverkið. „Ég hef alltaf verið frekar „cocky“,“ segir Bergsteinn sem fullvissar Keflvíkinga að lokum um að markið sé í öruggum höndum.