Haukur Helgi í viðræðum við Njarðvík
Einn besti körfuboltamaður landsins, landsliðs- og atvinnumaðurinn Haukur Helgi Pálsson, mun líklega klæðast Njarðvíkurbúningnum í Domino’sdeildinni en hann á nú í viðræðum við Njarðvíkinga. Bylgjan greindi frá þessu í hádeginu og Gunnar Örlygsson, formaður körfuknattleiksdeildar UMFN staðfesti það við VF að viðræður væru í gangi.
Það þarf ekki að orðlengja frekar hversu mikill liðsstyrkur þetta er fyrir Njarðvíkinga en þeir töpuðu fyrir Keflavík í nágrannaslag í síðustu umferð. Haukur Helgi var einn af lykilleikmönnum Íslands á Evrópumótinu í körfubolta síðla sumars. Hann gerði skammtímasamning við þýska liðið Mitteldeutscher og lék síðast með því fyrir helgina.
UMFN verður með fréttamannafund á morgun þar sem nær öruggt er að Haukur Helgi verði kynntur til leiks með þeim grænu.