Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Haukar vængstýfðir, KR vann Grindavík í Röstinni
Föstudagur 12. mars 2004 kl. 20:58

Haukar vængstýfðir, KR vann Grindavík í Röstinni

NJARÐVÍK-HAUKAR

Njarðvíkingar unnu sannfærandi heimasigur á Haukum, 100-61,  í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Intersport-deildarinnar í kvöld.

 

Bæði lið virtust taugaóstyrk í upphafi leiks þar sem staðan var enn 6-6 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður, en heimamenn hrukku loks í gírinn og voru komnir með 10 stiga forskot fyrir annan leikhluta.

Þegar blásið var til leiks að nýju mættu Haukar sterkir til leiks og gáfu ekkert eftir. Njarðvíkingar náðu ekki nógu góðum tökum á þeim í vörninni og var staðan 40-32 í hálfleik.

Eitthvað hefur Friðrik Ragnarsson sagt við sína menn í hálfleik því að í þriðja leikhluta óðu Njarðvíkingar yfir Haukana og skelltu í lás í vörninni. Sóknartilburðir gestanna voru ráðleysislegir og stigamunurinn jókst hratt. Will Chavis og Brandon Woudstra fóru fyrir þeim grænu sem gerðu gjörsamlega útum leikinn á þessum leikkafla og var staðan orðin 74-46 fyrir lokafjórðunginn.

Síðasti leikhlutinn bar þess merki að úrslitin væru löngu ráðin. Michael Manciel var settur á Haukabekkinn og hvíldur á meðan „minni spámennirnir“ í Njarðvíkurliðinu fengu færi á að láta ljós sitt skína. Þar fór fremstur Ólafur Ingvason sem steig ekki feilspor þann tíma sem hann tók þátt, en annars fengu allir Njarðvíkingar að spila og allir komust þeir á blað.

Njarðvíkingar hafa gefið tóninn fyrir komandi leiki og mega Haukarnir sannarlega taka sig á ef ekki á að fara illa fyrir þeim í seinni leik liðanna sem fer fram á Ásvöllum á sunnudaginn.

 

Friðrik þjálfari var ánægður með leik sinna manna og sagðist trúa því að þeir væru nú að toppa á hárréttum tíma. „Við erum búnir að æfa vel að undanförnu og allir eru í hörkuformi. Vörnin hjá okkur var sérstaklega massíf í kvöld og skilaði okkur mörgum auðveldum stigum úr hraðaupphlaupum. Nú bara klárum við þetta á sunnudaginn.“

 

Stigahæstir:

Njarðvík: Brandon Woudstra 21, Páll Kristinsson 18/13, Will Chavis 17, Brenton Birmingham 16.

Haukar: Michael Manciel 12, Þórður Gunnþórsson 10.

 

 

 

GRINDAVÍK-KR

 

Grindvíkingar töpuðu óvænt fyrir KR-ingum á heimavelli sínum í kvöld. Lokatölur voru 95-99 fyrir gestina sem voru fyrirfram ekki taldir sigurstranglegri, enda lentu þeir í 7. sæti deildarinnar á meðan Grindvíkingar voru í 2. sæti.

 

Heimamenn byrjuðu af miklum krafti og voru með góða stjórn á leiknum í fyrsta leikhluta og leiddu að honum loknum, 25-19. Leikurinn bauð upp á mikinn hraða og baráttu og virtust Grindvíkingar til alls líklegir.

Í öðrum leikhluta var þó eins og af þeim væri dregið og KR-ingar fóru að ná tökum á leiknum. Grindvíkingar léku alls ekki á fullum dampi og leyfðu gestunum að saxa jafnt og þétt á forskotið og var hálfleiksstaðan 49-46.

Í seinni hálfleik tóku KR-ingarnir völdin og þjörmuðu duglega að Grindvíkingum og náðu fljótlega yfirhöndinni. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu en allt kom fyrir ekki. Tap var staðreynd og nú bíður þeirra hið erfiða hlutskipti að reyna að sækja sigur í DHL-höllina á sunnudaginn. Takist það munu liðin eigast við í oddaleik í Röstinni á þriðjudag til að skera úr um hvort þeirra komist í undanúrslit.

 

Friðrik Ingi, þjálfari Grindvíkinga var að vonum ekki sáttur við leik sinna manna en segir þá tilbúna til að bæta fyrir frammistöðuna í kvöld í næsta leik.

„Við ætluðum auðvitað að vinna þennan leik! En nú verða menn bara að sýna úr hverju þeir eru gerðir. Það er enginn beygur í okkur fyrir næsta leik og við munum mæta dýrvitlausir til leiks.“

VF-Myndir: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024