Haukar sýndu klærnar á Ásvöllum
liðin mætast í 4. sinn í Keflavík á mánudagskvöld
Keflvíkingum tókst ekki að sópa út þriðja besta liði deildarkeppninnar í Hafnarfirði í kvöld. Haukarnir áttu svör við öllu sem Keflvíkingar buðu uppá og unnu nokkuð sannfærandi 12 stiga sigur, 100-88.
Haukar höfðu frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn en Keflvíkingar voru að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna og tóku þar að auki 10 sóknarfráköst sem að hélt þeim í seilingarfjarlægð. Aldursforsetarnir Damon Johnson og Gunnar Einarsson fóru fyrir liði gestanna í fyrri hálfleik í stigaskorun.
Keflvíkingar komust svo yfir með körfu Arnars Freys Jónssonar, 51-54, í byrjun þriðja leikhluta en þá sögðu Haukar hingað og ekki lengra og héldu Keflvíkingum 5-6 stigum fyrir aftan sig fram í lokafjórðunginn. Þar herrtu heimamenn svo róðurinn og voru agaðir í sínum sóknaraðgerðum á meðan Keflvíkingum sárvantaði leiðtoga til að taka af skarið. Hingað til hefur Davon Usher séð um það í seríunni en Haukar höfðu greinilega unnið heimavinnuna sína og tvídekkuðu ýmist eða skptu á öllum hindrunum sem Usher fékk.
Sigri heimanna var aldrei ógnað síðustu mínúturnar og sýndu Haukar að þeir hafa það sem til þarf til að klára leiki, eitthvað sem þeir hafa ekki náð að gera fram að þessu í einvíginu.
Stigahæstir í liði Keflavíkur voru Davon Usher með 19 stig og Damon Johnson með 18.
Liðin mætast í 4. sinn í TM höllinni n.k. mánudagskvöld.