Haukar sigruðu Grindavík
Haukar sigruðu Grindavík 73-72 í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í kvöld. Með sigrinum náðu Haukastúlkur fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar.
Leikurinn var jafn lengst af og höfðu Haukar nauma forystu í leikhléi 42-39. Þær léku vel í þriðja leikhluta og höfðu 12 stiga forskot að honum loknum, 64-52. Grindavíkurstúlkur neituðu þó að gefast upp, náðu að minnka muninn og fengu tækifæri til að stela sigrinum í lok leiksins en klúðruðu sókn sinni og Haukar því sigurvegarar.
Helena Sverrisdóttir var að vanda allt í öllu hjá Haukum, en hún skoraði 33 stig og tók 17 fráköst auk þess að stela níu boltum. Leikurinn var í raun eingvígi milli hennar og Jericu Watson hjá Grindavík, en hún skoraði 30 stig, tók 17 fráköst og varði 9 skot fyrir Grindavík.
Haukar hafa nú 22 stig að loknum 12 umferðum en Grindavík er í öðru sæti með 18 stig. Haukar léku án Meagan Mahoney, bandaríska leikmanns síns, en hún var ekki leikmaður með liðinu þegar þessi viðureign átti upphaflega að fara fram.
VF-myndir/ Hans Guðmundsson: 1: Helena Sverrisdóttir reynir skot í leiknum í kvöld. 2: Helena tekst á við Jericu Watson