Haukar lögðu Keflavík í spennuleik í unglingaflokki
Sigrún Ámundadóttir, Haukum, var valin maður leiksins en hún gerði 21 stig í leiknum og tók 12 fráköst. Þær Helena Sverrisdóttir og María Ben Erlingsdóttir léku ekki með sínum liðum í dag þar sem þær eru báðar að taka stöðupróf fyrir bandaríska háskóla en þær hyggjast báðar stunda nám í Bandaríkjunum á næstu leiktíð.
Varnir liðanna voru sterkar í upphafi leiks og var lítið skorað. Liðin voru mikið á vítalínunni en það var Keflavík sem hafði forystuna að loknum fyrsta leikhluta 15-12.
Bæði lið beittu pressuvörn sem skilaði ekki mörgum boltum en þeim tókst að hægja nokkuð á sóknaraðgerðum andstæðingsins en pressurnar kostuðu einnig sitt. Margrét Kara Sturludóttir fékk sína þriðju villu snemma í 2. leikhluta sem og Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir. Guðrún Ámundadóttir gerði 5 stig í röð fyrir Hauka og kom þeim rauðu í 28-21 en Keflavík náði að minnka muninn í 29-27 fyrir hálfleik með lokakörfu frá Hörpu Guðjónsdóttur.
Keflavík var mun sterkari aðilinn í upphafi síðari hálfleiksins og náðu fínni forystu 42-35. Villuvandræðin héldu áfram að hrjá bæði lið, Unnur Tara Jónsdóttir fékk sína fjórðu villu í liði Hauka í þriðja leikhluta sem og þær Margrét Kara og Ingibjörg Elva í Keflavíkurliðinu. Bryndís Guðmundsdóttir kom Keflavík 48-40 með síðustu körfu þriðja leikhluta og góður gangur í Keflavíkurliðinu.
Snemma í fjórða leikhluta fékk Unnur Tara Jónsdóttir sína fimmtu villu í liði Hauka en það mótlæti virtist aðeins efla þær rauðu sem komust yfir með þriggja stiga körfu frá manni leiksins, Sigrúnu Ámundadóttur, og staðan orðin 55-54 Haukum í vil.
Endaspretturinn var æsispennandi og þegar sex sekúndur voru til leiksloka var staðan 65-62 Haukum í vil og Keflavík átti innkast á miðjunni. Bryndís Guðmundsdóttir fær boltann og brotið er á henni í þriggja stiga skoti. Bryndís hitti úr fyrstu tveimur vítunum en það þriðja vildi ekki ofan í og því fögnuðu Haukar sigri og sínum fjórða bikarmeistaratitli á þessari bikarhelgi yngri flokka.
Eins og fyrr greinir var Sigrún Ámundadóttir valin besti maður leiksins en Bryndís Guðmundsdóttir var langatkvæðamest í liði Keflavíkur. Bæði lið léku skemmtilegan bolta í dag og ljóst að þau eiga eftir að