Haukar knúðu fram oddaleik
Keflvíkingar réðu ekki við svæðisvörn gestanna í 4. leikhluta
Keflvíkingar biðu lægri hlut gegn Haukum í 4. leik liðanna í 8 liða úrslitum Domino´s deildar karla í kvöld. Lokatölur urðu 73-80 og er staðan í einvíginu þá orðin jöfn 2-2 og ljóst að liðin munu leika hreinan úrslitaleik um sæti í undanúrslitum á Skírdag.
Leikurinn var jafn framan af og liðin skiptust á að leiða í fyrsta leikhluta þar sem að augljóst var að taugaspennan var mikil meðal leikmanna beggja liða. Mikið var um tapaða bolta og misheppnaðar sóknartilraunir en hvorugt liðið tók neina spretti í stigaskorun.
Keflvíkingar tóku svo af skarið í 2. leikhluta g náðu upp góðri 7 stiga forystu sem að skildi svo liðin að í hálfleik, 44-37. Davon Usher sýndi frábær tilþrif í leikhlutanum þegar hann spólaði sig hvað eftir annað í gegnum vörn Haukanna og skoraði nánast að vild á tímabili.
Liðin skiptust svo á að gera áhlaup á hvort annað í þriðja leikhuta en heimamenn voru alltaf skrefinu á undan. Andrés Kristleifsson kom með góða baráttu inn í lið Keflvíkinga sem að virtust ætla að halda fast um forystuna í leiknum og fóru með 7 stiga mun inn í fjórða og síðasta leikhutann.
Þegar Keflvíkingar komust 10 stigum yfir í byrjun 4. leikhluta skiptu Haukar yfir í svæðisvörn sem að virtist gjörsamlega slá heimamenn útaf laginu. Keflvíkingum gekk hræðilega að leysa upp svæðisvörnina og töpuðust margir boltar í óðagoti og mörg slæm skot litu dagsins ljós. Hægt og rólega klóruðu Haukar sig inn í leikinn og óx þeim ásmegin með hverri körfunni. Ráðaleysi heimamanna var algjört og fór að bera á taugaveiklun í þeirra leik þegar Haukarnir komust yfir 67-70 með þriggja stiga körfu Kristins Marínóssonar. Gestirnir gerðu svo úti um leikinn á vítalínunni og uppskáru 7 stiga sigur eftir að hafa unnið síðasta leikhlutann með 14 stiga mun, 11-25.
Keflvíkingar hljóta að vera svekktir með úrslitin og nokkuð ljóst að sálfræðilega hefur serían snúist við með tapi Keflvíkinga í síðustu tveimur leikjum. Haukarnir stigu trylltan stríðsdans í leikslok á meðan heimamenn gengu hnýtnir af velli.
Davon Usher (24 stig) og Damon Johnson (15 stig) voru atkvæðamestir Keflvíkinga í kvöld og þá skoraði Valur Orri Valsson 10 stig.
Liðin þurfa því að mætast í hreinum oddaleik í Hafnarfirði á fimmtudagskvöldið en á sama tíma mætast Njarðvíkingar og Stjarnan í Ljónagryfjunni, einnig í oddaleik.
Það er því von á veislu á Skírdag!