HÁSPENNA LÍFSHÆTTA! Njarðvík vann Hópbílabikarinn
NJARÐVÍK-KEFLAVÍK
Njarðvík lagði Keflavík að velli í rafmögnuðum spennuleik með 90 stigum gegn 83 og eru því Hópbílabilabikarmeistarar 2003.
Njarðvík byrjaði leikinn með miklum krafti og komust yfir 10-0. Þá var komið að Keflvíkingum sem hrukku í gang í sókninni og skelltu í lás í vörninni. Þeir rúlluðu yfir þá grænu og leiddu eftir fyrsta fjórðung 19-29. Í öðrum leikhluta hélt lánleysi Njarðvíkur áfram þar sem Keflavíkurvörnin stöðvaði alla sóknartilburði ásamt því að Bradford og Allen áttu fantagóðan leik í sókninni. Staðan í hálfleik var því 35-49 Keflavík í vil og útlitið ekki bjart hjá Njarðvík.
Þriðji leikhluti var mun jafnari en hinir fyrri, en Njarðvíkingar virtust staðráðnir í því að hanga í leiknum. Þegar var komið fram í fjórða leikhluta höfðu Keflvíkingar enn góða forystu 59-74 en þá urðu kaflaskil í leiknum. Guðmundur Jónsson og Halldór Karlsson komu þá inná og leiddu endurreisn Njarðvíkur og stuttu síðar misstu Keflvíkingar tvo menn útaf með 5 villur. Allen og Jón Norðdal höfðu fram að því verið með bestu mönnum Keflavíkur eins og svo oft áður en án þeirra hrundi leikur liðsfélaga þeirra og Njarðvíkingar gegnu á lagið. Alls skoraði Guðmundur 15 stig í síðasta fjórðungi og var sannkölluð hetja sinna manna. Lokamínúturnar voru óbærilega spennandi en eftir mikla baráttu stóðu Njarðvíkingar uppi sem sigurvegarar.
Guðjón Skúlason var af augljósri ástæðu verulega ósáttur að leikslokum. „Við gáfumst bara upp. Svo áttu dómararnir lélegan dag og það er allt í lagi að þeir fái að vita það. Við vorum að spila vel þangað til að þeir tóku af okkur tvo menn, en það var okkur að kenna að spila ekki betur undir restina.“
Friðrik Ragnarsson var í skýjunum að lokinni verðlaunaafhendingunni. „Ég er eiginlega bara orðlaus yfir því hvað við komum vel til baka. Þetta sýnir okkur að það er alltaf hægt að vonast það besta. Ég sagði strákunum í hálfleik að missa þá ekki frá okkur í þriðja leikhluta þannig að við vorum alltaf inni í leiknum.“ Hann jós einnig lofi yfir strákana sem komu af bekknum þ.e. Guðmund, Halldór og Ólaf. „Brandon og Brenton áttu ekki mjög góðan leik, en þá koma strákarnir sterkir inn af bekknum. Svo segja menn að við höfum enga breidd!“
Stigahæstir Njarðvíkur: Guðmundur 23 stig, Brandon 21 stig, Friðrik 17 stig og 14 fráköst og 5 varin skot.
Stigahæstir Keflavíkur: Derrick 23 stig og 10 fráköst, Nick 20 stig og Gunnar Einars 17 stig.
Tölfræði leiksins má finna hér