Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Háspenna lífshætta í Ljónagryfjunni
Mánudagur 23. janúar 2012 kl. 21:55

Háspenna lífshætta í Ljónagryfjunni


Nú rétt í þessu lauk æsispennandi leik Njarðvíkinga og Keflvíkinga í Powerade-bikar kvenna í körfubolta. Leiknum lauk með sigri Njarðvíkinga, 78-72 eftir að framlengja þurfti leikinn, en jafnt var að loknum venjulegum leiktíma 67-67.

Leikurinn var fremur jafn allt frá upphafi þó var það svo að Keflvíkingar voru skrefinu á undan heimamönnum bróðurpart leiksins. Gríðarleg spenna einkenndi leikinn undir lokin og áhorfendur sem fylltu íþróttahúsið í Njarðvík fengu aldeilis penginganna sinna virði í kvöld. Leikurinn var á köflum ekki mikið fyrir augað og leikmenn sérstaklega taugaveiklaðir undir lokin þegar allt var undir en þó hin mesta skemmtun. Liðin skiptust 12 sinnum á forystunni og 12 sinnum var jafnt, sem segir kannski mikið um hversu spennandi leikurinn var.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn betur og voru með yfirhöndina þegar að fyrsta leikhluta lauk. Þar fór Jaleesa Butler fremst í flokki þegar að kom að sóknarleiknum en Pálína Gunnlaugsdóttir var einnig spræk í fyrri hálfleik. Keflvíkingar náðu mest 10 stiga forystu í fyrri hálfleik en staðan var 36-38 fyrir Keflvíkinga þegar að leikur var hálfnaður.

Njarðvíkingar voru ekki af baki dottnir og hleyptu spennu í leikinn strax þegar flautað var til leiks í síðari hálfleik en þó var liðið að reyna helst til mikið af þriggja stiga skotum. Alls tóku Njarðvíkingar 26 slík skot í leiknum en hittu aðeins úr 6 þeirra. Keflvíkingar voru aðeins rólegri í skotum sínum fyrir utan en þær treystu mikið á að Jaleesa Butler bæri sóknarleikinn uppi á meðan aðrir leikmenn voru ekki að taka af skarið. Nýji erlendi leikmaður Keflvíkinga, Shanika Butler var ekki að leika vel í kvöld og virtist sem sjálfstraustið væri ekki alveg til staðar en leikformið er kannski ekki með besta móti hjá bakverðinum.

Leikurinn var járnum allan síðari hálfleik og undir lokin ætlaði allt um koll að keyra þegar spennan var sem mest. Umdeilt atvik átti sér stað þegar að aðeins nokkrar sekúndur voru til leiksloka en þá fengu Njarðvíkingar vítaskot sem þeir áttu inni samkvæmt dómurum leiksins sem höfðu ekki tekið eftir því að það væri kominn skotréttur hjá Njarðvíkingum skömmu áður. Keflvíkingar voru ósáttir en Petrúnella Skúladóttir steig á línuna og jafnaði leikinn 67-67. Þannig var lokastaðan í venjulegum leiktíma en Njarðvíkingar tóku til sinna ráða í framlengingunni.

Njarðvíkingar skoruðu svo 11 stig gegn 5 frá Keflvíkingum í framlengingunni en þar munaði kannski mestu um þriggja stiga körfu frá Petrúnellu þegar rúmar 2 mínútur voru til leiksloka og munurinn fór í 6 stig. Eftir það voru Keflvíkngar í eltingarleik og náðu einfaldlega ekki í skottið á Njarðvíkingum sem eru því komnar í undanúrslit í bikarnum.

stigin:

Njarðvík: Shanae Baker-Brice 22/7 fráköst/5 stolnir, Lele Hardy 19/20 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 17, Ína María Einarsdóttir 12, Ólöf Helga Pálsdóttir 4, Salbjörg Sævarsdóttir 2, Harpa Hallgrímsdóttir 2/12 fráköst

Keflavík: Jaleesa Butler 30/14 fráköst/6 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 15/5 fráköst, Sara Rún  Hinriksdóttir 10/5 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 8/6 fráköst, Helga Hallgrímsdóttir 6/8 fráköst, Shanika Chantel Butler 3/4 fráköst/6 stoðsendingar


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sara Rún fékk blóðnasir enda var hart barist

Það voru líka læti í kofanum sem lítil eyru þola kannski ekki, þessi litla snót var þó vel merkt...

báðum liðum enda mamman úr Keflavík og pabbinn Njarðvíkingur.

Myndir EJS/POP