Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Hasar í Sláturhúsinu
Föstudagur 8. apríl 2005 kl. 02:04

Hasar í Sláturhúsinu

Keflvíkingar komust yfir í einvíginu við Snæfell um Íslandsmeistaratitilinn eftirsótta með sigri 86-83 í Sláturhúsinu í kvöld. Háspenna var í Sláturhúsinu og hiti í leikmönnum í kvöld.

Snæfellingar byrjuðu betur og komust í 5-0 og lítið var að ganga upp í sóknarleik Keflvíkinga í upphafi og skoruðu Keflvíkingar ekki stig fyrstu tvær mínútur leiksins. Snæfellingar juku svo forskot sitt í átta stig, 9-17 og Magnús Gunnarsson var kominn með þrjár villur eftir rúmlega sjö mínútur af fyrsta leikhluta og var samstundis kippt útaf. Villuvandræðin héldu áfram að plaga Keflvíkinga og Glover fékk sína aðra villu snemma í fyrsta leikhluta og líkt og Magnús hvíldi hann stóran part af fyrri hálfleik. Liðin voru ekki að finna sig vel í sóknarleiknum og lítið var um skor. Keflvíkingar byrjuðu maður á mann og pressuðu Snæfellingana af og til. Keflvíkingar náðu þó að minnka muninn niður í fjögur stig fyrir lok fyrsta leikhluta og staðan 16-20.

Í öðrum leikhluta ríkti jafnræði með liðunum en Snæfellingar alltaf skrefi á  undan Keflvíkingum. Snæfellingar voru mestmegnis af öðrum leikhluta með 3-4 stiga mun. Nick Bradford og Sverrir Þór Sverrisson voru að spila vel í liði Keflavíkur, og sáu um bróðurpartinn af stigaskorun Keflvíkinga. Arnar Jónsson frískaði upp á leik Keflvíkinga þegar hann kom inn á. Arnar færði meiri hraða í sóknarleik Keflvíkinga og var öflugur í vörninni þar sem hann stal meðal annars tveimur boltum sem skiluðu svo auðveldum fjórum stigum. Keflvíkingar ná að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar um fjórar mínútur eru eftir af fyrri hálfleik en staðan í hálfleik var jöfn 39-39 og Keflvíkingar langt frá sínum besta leik. Nick Bradford átti frábæran leik í fyrri hálfleik og skoraði 15 stig og tók 8 fráköst. Keflvíkingar voru í vandræðum með Clemmons og Hlyn Bæringsson undir körfunni enda Glover mikið á bekknum í fyrri hálfleik.

Nick Bradford byrjaði seinni hálfleikinn með þristi en Sigurður Þorvaldsson svaraði á sama bragði. Snæfellingar náðu aftur yfirhöndinni í seinni hálfleik og komust í 52-47. Anthony Glover var öflugur inn í teig og notaði styrk sinn vel undir körfunni. Keflvíkingar ná góðum kafla undir lok þriðja leikhluta og komust í sex stiga mun með fjórum stigum frá Gunnari Einarssyni. Snæfellingar svöruðu þó fyrir sig og var aðeins eins stigs munur í hálfleik 62-62 og mikil spenna fyrir síðasta leikhlutann.

Liðin skiptust á að hafa forystu í síðasta leikhluta. Clemmons og Hlynur voru báðir að spila á fjórum villum þegar rúmlega sex mínútur voru eftir. Keflvíkingar leituðu þá mikið af Anthony Glover í teignum og hann skilaði sínu með hverri körfunni á fætur annarri. Clemmons og Hlynur fengu svo báðir sína þriðju villu þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum og Keflvíkingar með yfirhöndina 76-72. Anthony Glover nýtti sér það vel eftir að stóru mennirnir hjá Snæfell voru útaf og sallaði á gestina stigum. Þegar 40 sekúndur voru eftir jafnar Sigurður Þorvaldsson leikinn með stórum þrist 83-83. Þá er brotið á Glover og hann setur annað vítið ofaní. Glover stelur svo boltanum í næstu sókn þegar aðeins 16 sekúndur voru eftir af leiknum. Þegar fjórar sekúndur eru svo eftir brjóta Snæfellingar á Sverri Þór Sverrissyni sem setti bæði víti sín ofaní. Svellkaldur. Snæfellingar náðu ekki að jafna metin og Keflvíkingar unnu leikinn 86-83. Anthony Glover fór mikinn í síðasta leikhlutanum og skoraði 17 stig í honum. Mikill hiti var í mönnum í leikslok og lentu leikmenn saman á gólfinu og þurfti að stíga þá í sundur. Það var í raun eini svarti bletturinn á annars skemmtilegum og þrælspennandi leik og leiða Keflvíkingar nú einvígið fyrir þriðja leikinn í Stykkishólmi á laugardag klukkan 14:00.
Stigahæstur í liði Keflvíkinga var Anthony Glover með 30 stig og 10 fráköst. Nick Bradford var með 25 stig og hirti 17 fráköst. Sverrir Þór Sverrisson var með 13 stig og Jón Norðdal 8.

Hjá Snæfell var Hlynur Bæringsson með 18 stig og 11 fráköst. Calvin Clemmons var með 16 stig og 11 fráköst. Sigurður Þorvaldsson var með 15 og Mike Ames 13.

Jón Norðdal Hafsteinsson, leikmaður Keflvíkinga, sem meiddist lítillega í síðasta leikhluta sagði það mikinn létti að hafa unnið þennan leik og þar með leiða einvígið, „Við komum bara ákveðnir til leiks og náðum að klára þetta, við spiluðum illa í fyrri hálfleik en komum sterkir tilbaka á köflum í síðari hálfleik en samt aldrei nógu sannfærandi. Siggi lét heyra í sér í hálfleik eins og vænta var, við tókum það bara til okkar og gerðum það sem hann sagði okkur að gera að hluta til, við hefðum getað gert betur. Ég fékk krampa í kálfann og var hálf óvígur eftir það, þetta er samt ekkert alvarlegt,“ sagði Jón í leikslok.

Tölfræði leiksins

Myndagallery frá leiknum

Vf-myndir/Þorgils

   

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024