Hart tekist á um Stapaskóla í bæjarstjórn
Hart var tekist á um kostnað við byggingu Stapaskóla í Njarðvík á bæjarstjórnarfundi 21. mars síðastliðinn. Á fundinum lögðu Sjálfstæðismenn fram bókun þar sem þeir lýstu áhyggjum af fyrirhuguðu útboði og kostnaði við þriðja áfanga Stapaskóla.
Ekkert með gæði skólastarfs að gera
Það var Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) sem tók til máls og gagnrýndi kostnaðarmat við útboð á þriðja áfanga Stapaskóla, undir bókunina rituðu Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson úr Sjálfstæðisflokki. Margrét Þórarinsdóttir (U) tók undir bókun þeirra.
„Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsum áhyggjum okkar af fyrirhuguðu útboði við þriðja áfanga Stapaskóla. Ljóst er að núverandi bygging er verulega óhagkvæm og innan hennar allt of mikið rými sem ekki er nýtt. Byggingin er þegar orðin mjög dýr og mikið lagt í hönnun og flottheit sem hafa ekkert með gæði skólastarfs að gera.
Við svo dýra framkvæmd frestast óhjákvæmilega aðrar framkvæmdir sem ráðast hefði mátt í samhliða og þykir okkur miður að vilji meirihlutans sé að halda áfram á sömu braut.
Í kostnaðarmati Stapaskóla við útboð á þriðja áfanga er hönnunarkostnaði enn haldið fyrir utan kostnaðarreikninga. Þetta endurspeglar á engan hátt heildar kostnað verkefnisins og með engu móti hægt að bera saman kostnað pr. fermetra til að meta hagkvæmni byggingarinnar samanborið við aðrar byggingar. Við hvetjum því til þess að ekki sé skorast undan að gera ráð fyrir öllum kostnaðarliðum, annað gefur skakka mynd af umfangi verksins.
Þessi bygging hefur frá upphafi verið gífurlega dýr og illa ígrunduð. Sú ábyrgð er alfarið á herðum meirihlutans. Við sitjum því hjá í fyrsta lið fundargerðar bæjarráðs frá 16. mars en samþykkjum fundargerðina að öðru leyti.“
Einn sá allra ódýrasti
Friðjón Einarsson (S), formaður bæjarráðs, steig í pontu og sagði bókun Sjálfstæðismanna koma sér á óvart. Hann sagði bæjarráð vera byggingarnefnd Stapaskóla og hann hafi verið unnin saman af öllum bæjarfulltrúum, byrjað hafi verið fyrir mörgum árum að hanna skólann. „Kemur mér mjög á óvart að núna þegar við ætlum að bjóða út, áður en við vitum hvað það kostar – af því að við getum auðvitað hafnað þeim tilboðum sem við fáum, að þá standi menn upp og segi að þetta sé ekki nógu gott. Það hefur enginn skóli verið hannaður eins mikið og vel eins og Stapaskóli frá upphafi. Þannig að ég skil ekki þessi vinnubrögð sem hafa komið upp núna – enn á ný fer fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í pontu og talar um að skólinn hafi verið allt of dýr og þetta hafi verið bruðl. Samt er búið að staðfesta það margsinnis að þessi skóli er einn allra ódýrasti grunnskóli sem byggður hefur verið á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi í mörg ár. Þótt maður segi að hann sé dýr þá er það ekki sannleikurinn.“
Friðjóni var heitt í hamsi og hann sagði Sjálfstæðismenn fara með rangt mál og bað þá að skoða gögn sem hafi verið kynnt og samþykkt á síðasta kjörtímabili, þ.m.t. af Sjálfstæðismönnum.
„Öll byggingin, hönnunin – allt var samþykkt af bæjarráði og þar með ykkur, fulltrúar. Ég skil ekki svona vinnubrögð að koma alltaf eftir á – það má kannski breyta, ég tek undir það, en komið þá með einhverjar lausnir.“
Helga Jóhanna svaraði því til að Sjálfstæðismenn væru að vekja athygli á vinnubrögðum við kostnaðarsamar framkvæmdir á borð við Stapaskóla.
„Við erum hins vegar að vekja athygli á því að þegar við ráðumst í þetta dýrar framkvæmdir á einni byggingu að þá óneitanlega frestum við öðrum áformum okkar, t.d. uppbyggingu leikskóla annars staðar í bænum. Þar liggur hundurinn grafinn,“ sagði hún að lokum.