Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Hart barist í úrslitakeppninni
Föstudagur 16. mars 2007 kl. 09:31

Hart barist í úrslitakeppninni

Úrslitakeppnin í Iceland Express deild karla er hafin og ljóst að allir setja stefnuna á þann stóra. Í kvöld mætast Njarðvík og Hamar/Selfoss í Ljónagryfjunni en Grindavík heimsækir Skallagrím í Borgarnes. Báðir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 en í gærkvöldi fóru fyrstu leikirnir fram í úrslitakeppninni þar sem ÍR tók 1-0 forystu gegn KR og Snæfell komst 1-0 yfir gegn Keflavík.

 

Báðir leikirnir í gær voru miklir baráttuleikir og á köflum barst baráttan út fyrir leikvöllinn eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þeir Brynjar Björnsson KR, og Ómar Örn Sævarsson ÍR eltu boltann út fyrir völlinn með þeim afleiðingum að Brynjar keyrði niður auglýsingaskilti framan við varamannabekk KR og tók þjálfara sinn, Benedikt Guðmundsson, með í fallinu. Benedikt sakaði ekki en KR mátti engu að síður játa sig sigrað í leiknum.

 

Fall er fararheill!

 

Gera má ráð fyrir viðlika baráttu í Ljónagryfjunni og í Borgarnesi í kvöld svo það er ekki úr vegi að þjálfarar liðanna geri varúðarráðstafanir, sjálfum sér til heilla.

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024