Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Haraldur „Rio“ Guðmundsson var ánægður með ungu strákana
Þriðjudagur 12. júlí 2011 kl. 12:09

Haraldur „Rio“ Guðmundsson var ánægður með ungu strákana

Haraldur Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga skartaði reffilegri greiðslu í gær en vildi þó ekki viðurkenna að hann hefði tapað veðmáli eða neitt slíkt. „Nei, nei. Það er ekkert í gangi þannig. Systir konunnar er hárgreiðslukona og mig langaði að breyta aðeins til, sjá aðeins út í rauninni. Það eru ekkert allir sem geta „púllað“ þetta,“ sagði Haraldur sem lítur út eins og Rio Ferdinand með hárið fléttað fast aftur en dómur er eftir að falla hvort hann „púlli“ greiðsluna.

En hvernig líst honum á síðustu tvo leiki Keflvíkinga. „Ég er sáttur við spilamennskuuna hjá okkur í dag allavega. Fyrstu 70 mínúturnar fannst mér við keyra yfir þá, mér fannst þeir ekki eiga séns í okkur. Svo kemur þetta mark upp úr þurru hjá þeim og þá kemur smá órói á okkar leik. En hefði þriðja markið fallið okkar meginn þá hefði sennilega komið númer fjögur og fimm því við vorum með góð tök á þessu.“

Haraldur er ánægður með ungu mennina sem eru að standa sig vel hjá liðinu. „Það kemur klárlega ferskleiki inn í liðið með þessum ungu leikmönnum. Þeir koma óhræddir inn og eru allir í líkamlega góðu standi. Þeir eru líka með tæran koll í þetta.“

Keflvíkingar hafa nú sigrað tvo leiki í röð gegn liðum sem eru í neðri botnbaráttu og næst leika þeir gegn Þórsurum sem eru í 10. sæti. „Það er mikilvægt að vinna þessi lið í kringum okkur og það væri frábært að ná í stig gegn Þór í næsta leik,“ sagði Haraldur „Rio“ Guðmundsson að lokum.





Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir eru ekki ósvipaðir félagarnir, Rio og Halli.