Haraldur hættir hjá GRV
Haraldur Sigfús Magnússon þjálfari kvennaliðs GRV í knattspyrnu hefur sagt starfi sínu lausu en hann var einnig yfirþjálfari RV og hjá 2. flokki GRV. Haraldur hefur ákveðið að söðla um og fara upp á Akranes og starfa með ÍA á næstu leiktíð.
RV eða Reynir/Víðir hafa ákveðið að æfa í sínu hvoru lagi í vetur og kvaðst Haraldur vera ósammála þeirri tilraun að slíta liðin í sundur og reyna að tefla þeim fram sem stökum liðinum. Af þessum sökum ákvað Haraldur að róa á ný mið. Fyrir þessa leiktíð gerði Haraldur eins árs samning við GRV og mun því ekki gefa kost á sér áfram.
,,Þetta er búið að vera skemmtilegt sumar og kveð ég með söknuði og óska ég GRV og Reyni alls hins besta,” sagði Haraldur sem mun klára tímabilið sem aðstoðarþjálfari hjá Jakobi Má Jónharðssyni í meistaraflokki Reynis í 1. deild karla.
Uppi á Skipaskaga mun Haraldur þjálfa 5. flokk karla og 6. flokk kvenna sem og aðstoða við þjálfun í öðrum flokkum. Haraldur er 25 ára og hefur lokið 5. stigi þjálfaramenntunar KSÍ.
Mynd: Haraldur Sigfús Magnússon fyrrum þjálfari GRV