Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Haraldur fyrirliði Keflavíkur á leið til Noregs - óvissa með Willum
Þriðjudagur 30. ágúst 2011 kl. 17:54

Haraldur fyrirliði Keflavíkur á leið til Noregs - óvissa með Willum

Það hefur gengið á ýmsu hjá Keflvíkingum í dag því Haraldur F. Guðmundsson, fyrirliði liðsins mun vera á leið til Noregs en honum var boðinn samningur til áramóta hjá félaginu Start. Þá mun hafa verið krísufundur í hádeginu út af slæmu gengi Keflavíkurliðsins og framtíð Willums Þórs Þórssonar rædd.

Brottför Haraldar mun veikja Keflavíkurliðið en hann hefur stjórnað vörn liðsins sl. tvö ár. Áður en samningur við norska liðið kom upp höfðu einnig heyrst raddir um tilboð frá nokkrum íslenskum félögum sem sóttust eftir kröftum keflvíska miðvarðarins eftir þessa leiktíð, m.a. FH og KR.

Mikil viðbrögð hafa verið við ummælum Willums Þórs Þórssonar í viðtölum við fjölmiðla eftir tapleikinn gegn Fylki í gær. Í viðtali við Stöð 2 og Bylgjuna sagði þjálfarinn að það væri ekki nóg að hann einn legðist á árarnar. Þau ummæli fóru fyrir brjóstið á mörgum en í viðtali við vf.is sagði hann einnig ýmislegt sem þótti orka tvímælis.

Formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur vildi ekki tjá sig við Víkurfréttir en sagði að stjórnarfundur yrði haldinn annað kvöld (miðvikudag) og þar yrði staða liðsins rædd. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta mun staða Willums hafa verið rædd í hádeginu í dag og þar hafi menn verið sammála um að láta Willum klára tímabilið en endurnýja ekki samninginn eftir leiktíðina í haust.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Haraldur í baráttunni í gær gegn Fylki. Efst má sjá Willum í aksjón.