Haraldur Freyr: Hættum þegar við komumst í 2:0
„Við vorum miklu betri í fyrri hálfleik og áttum slatta af góðum færum. Svo bara eins og við hættum að spila fótbolta eftir að við komumst í 2:0 í upphafi seinni hálfleiks,“ sagði Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirlði Keflavíkur eftir 2:2 jafntefli á móti Selfossi í gærkvöldi í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.
Þegar annað mark Keflavíkur héldu margir að heimamenn myndu láta kné fylgja kviði og bæta við mörgum en svo reyndist því miður ekki raunin. „Þetta gerðist líka í Fram leiknum og hefur gerst í sumar. Við einhvern veginn hættum og gefum andstæðingnum tækifæri á að vera með boltann. Selfyssingar eru með hörku gott fótboltalið. Þeir sýndu það hér í þessum leik. Ótrúlegt en satt þá lá mark í loftinu og eftir að þeir skoruðu fyrra markið vorum við algerlega heillum horfnir. Það sýndi sig þegar þeir jöfnuðu og satt best að segja var eins gott að leikurinn var ekki lengri því það munaði engu að við skiluðum öllum stigunum til þeirra. Ég hef enga skýringu á þessu. Við þurfum kannski að líta í eigin barm og skoða hvort liðið sé hreinlega ekki í formi til að halda úti í heilan leik,“ sagði fyrirliðinn súr í bragði eftir leikinn.
Aðspurður um næsta leik sagði Haraldur: „Það er stutt í næstu tvo leiki. Breiðablik á fimmtudag og svo KR, báðir erfiðir leikir. Það er enginn tími til að væla yfir þessu. Við verðum að halda áfram og berjast. Þrátt fyrir þetta klúður er hugur í mannskapnum“.