Haraldur Árni nýr þjálfari Grindavíkur
Haraldur Árni Hróðmarsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari Grindavíkur og mun stýra félaginu út leiktíðina í Lengjudeild karla. Marko Valdimar Jankovic mun starfa með Haraldi Árna sem aðstoðarþjálfari. Þetta kemur fram á vef félagsins.
Haraldur Árni var aðstoðarþjálfari hjá ÍA á síðustu leiktíð en hann ásamt Jóni Þór Haukssyni stýrðu ÍA til sigurs í Lengjudeildinni. Þar áður var hann aðstoðarmaður hjá Val þegar Heimir Guðjónsson stýrði félaginu ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka. Haraldur er með KSÍ A þjálfaragráðu og UEFA Elite Youth A gráðu.
„Það er með mikilli ánægju sem við kynnum inn Harald sem nýjan þjálfara Grindavíkur. Við teljum að Haraldur og Marko munu koma af miklum krafti inn í starfið hjá okkur og væntum við mikils af samstarfinu,“ segir Haukur Guðberg Hauksson, formaður Knattspyrnudeildar Grindavíkur.
Knattspyrnudeild Grindavíkur býður Harald Árna velkominn til starfa hjá félaginu í yfirlýsingu og jafnframt vill félagið þakka Brynjari Birni Gunnarssyni og Orra Frey Hjaltalín fyrir sín störf við þjálfun meistaraflokks karlaliðs Grindavíkur.